Innlent

Aðildar­fé­lög BSRB undir­rita kjara­samninga

Atli Ísleifsson skrifar
Úr húsakynnum ríkissáttasemjara í dag.
Úr húsakynnum ríkissáttasemjara í dag. BSRB

Aðildarfélög BSRB hafa náð samkomulagi um launahækkanir og kjarabætur fyrir starfsfólk í almannaþjónustu við ríki og Reykjavíkurborg. Um skammtímasamninga er að ræða sem gilda í tólf mánuði frá 1. apríl 2023.

Í tilkynningu frá BRSB segir að forsvarsfólk fjórtán aðildarfélaga BSRB undirriti í kjölfarið kjarasamningana í húsi ríkissáttasemjara en undir þau falla um 14 þúsund félagsmenn. Stéttafélagið Sameyki hefur þegar undirritað sína samninga við ríki og borg.

Samningarnir fara nú í kynningu og í kjölfarið í atkvæðagreiðslu í félögunum sem lýkur 14. apríl.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir er formaður BSRB. BSRB

Haft er eftir Sonju Ýr Þorbergsdóttur, formanni BRSB, að leiðarljós félagsins í þessum viðræðum hafi verið að verja kaupmátt starfsfólks í almannaþjónustu, enda sé verðbólgan farin að bíta almenning verulega og langt síðan fólk á almennum vinnumarkaði hafi fengið sínar kjarabætur. 

„Við fögnum því að kjarasamningur taki við af kjarasamningi svo launafólk fái ávinninginn af samningunum strax í vasann 1. maí. Rétt eins og á almenna markaðinum er um skammtímasamninga að ræða og svo hefst fljótlega undirbúningur fyrir gerð langtímakjarasamninga hjá aðildarfélögum BSRB. Kröfur okkar munu ekki eingöngu beinast að launagreiðendum heldur einnig stjórnvöldum,“ segir Sonja Ýr í tilefni af samkomulaginu.

Stéttarfélögin sem samkomulagið nær til:

  • Félag flugmálastarfsmanna ríkisins
  • Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi
  • FOSS - stéttafélag í almannaþjónustu
  • Félag starfsmanna stjórnarráðsins
  • Kjölur, stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu
  • Landssamband lögreglumanna
  • Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna
  • Sameyki - stéttarfélag í almannaþjónustu
  • Sjúkraliðafélag Íslands
  • Starfsmannafélag Garðabæjar
  • Starfsmannafélag Kópavogs
  • Starfsmannafélag Húsavíkur
  • Starfsmannafélag Suðurnesja
  • Starfsmannafélag Vestmanneyja



Fleiri fréttir

Sjá meira


×