Sumir vegfarendur ráku upp stór augu þegar þeir sáu LED-skjá hangandi aftan á strætisvagni á vegum Strætó á dögunum. Á myndum af skiltinu sést að á því rúlla skjáauglýsingar og hylur það hluta af afturrúðu vagnsins.
hver setti fokking auglýsingar skjá á strætóinn pic.twitter.com/dVqVrKfNqC
— stefán (@bilunarstraumur) March 20, 2023
Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir um tilraunaverkefni á einum vagni að ræða. Það sé á vegum fyrirtækisins Nauts ehf. en það selur meðal annars auglýsingar á handföngum inni í vögnum Strætó. Fyrirtækið hafi viljað prófa að hengja LED-skjá aftan á vagn. Strætó beri engan kostnað af tilrauninni en fái hlutdeild í auglýsingasölu ef skjáirnir verða teknir í almenna notkun.
Tilraunaverkefnið virðist þó verða skammlíft. Í svari við fyrirspurn Vísis segir Samgöngustofa að að hún líti svo á að ljósaskilti á ökutækjum séu bönnuð. Vísar hún til sjöunda greinar reglugerðar um gerð og búnað ökutækja sem fjallar um ljósabúnað á ökutækjum.

Í ljósi reglugerðarinnar og truflunar sem ljósaskiltin geti valdið í umferðinni hafi Samgöngustofa mælst til þess að skiltin verði tekin niður.
Ekki náðist í Gunnar Gunnarsson, annan eiganda Nauts ehf., við vinnslu fréttarinnar. Jóhannes, framkvæmdastjóri Strætó, sagði Vísi fyrr í vikunni áður en álit Samgöngustofu lá fyrir að auglýsingafyrirtækið hefði farið með málið í gegnum lögfræðing og að hann gerði ráð fyrir að það hefði fengið grænt ljós hjá honum.