Kolkrabbar eru veiddir út um allan heim, með ýmsum aðferðum, og þykja hinn besti matur. Þeir hafa hins vegar ekki verið ræktaðir í stórum stíl, þar sem það er afar erfitt og krefst kjöraðstæðna.
Samkvæmt áætlunum sem Nueva Pescanova hefur skilað inn til fiskveiðistjórnunaryfirvalda á Kanaríeyjum hyggst fyrirtækið hins vegar rækta dýrin, sem eru einræn og vön myrkri, mörg saman í stórum tönkum í stöðugri birtu.
Áætlanirnar gera ráð fyrir um þúsund tönkum í tveggja hæða byggingu við höfnina í Las Palmas á Gran Canaria.
Til stendur að slátra dýrunum með því að setja þau í -3 gráðu kalt vatn.
Þar sem kolkrabbar hafa aldrei verið ræktaðir áður gilda engar reglur um ræktunina eða slátrun dýrana. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að aðferðin leiðir til hægs og erfiðs dauðdaga hjá fiskum.

Aquaculture Stewardship Council, sem vottar ræktað sjávarfang, hefur lagt til bann gegn aðferðinni og þá hafa matvörumarkaðir á borð við Tesco og Morrissons ákveðið að kaupa ekki fisk sem er slátrað með ísbaði.
Prófessorinn Peter Tse, taugasérfræðingur við Dartmouth University, segir um að ræða hægan og grimmilegan dauðdaga. Kolkrabbar séu álíka greindir og kettir og að mannúðlegra væri að aflífa þá eins og veiðimenn gera, með því að dauðrota þá.
Jonathan Birch, prófessor við London School of Economics, segir rannsóknir sýna að kolkrabbar upplifi bæði sársauka og vellíðan. Hann og kollegar hans telja ómögulegt að tryggja velferð dýranna í ræktun og að ísbaðs-aðferðin sé óásættanleg.
Nueva Pescanova áætlar að afföll verði um það bil 10 til 15 prósent sem Birch segir ekki heldur ásættanlegt.
Fyrirtækið hefur neitað því að kolkrabbarnir muni þjást.