Tsikhanouskaja var dæmd í sinni fjarveru en hún flúði land eftir forsetakosningarnar í Hvíta-Rússlandi árið 2020 þar sem hún bauð sig fram gegn Alexandr Lúkasjenka. Hin fertuga Tsikhanouskaja hefur lifað í útlegð í Póllandi og Litháen síðustu ár.
Saksóknarar í Hvíta-Rússlandi höfðuðu mál gegn henni í janúar, en sjálf hefur hún kallað málshöfðunina farsa og hafi ekkert með réttsýni að gera.
Tsikhanouskaja tók yfir hlutverkinu sem leiðtogi stjórnarandstöðu landsins eftir að eiginmaður hennar, forsetaframbjóðandinn Sergei Tsikhanouskí, var dæmdur í átján ára fangelsi í aðdraganda kosninganna 2020. Eftir kosningarnar lýsti Tsikhanouskaja yfir sigri þó að forsetinn Lúkasjenka hafi verið lýstur opinber sigurvegari kosninganna.
Kosningarnar 2020 leiddu til gríðarlegrar mótmælabylgju í Hvíta-Rússlandi – landi sem oft hefur verið lýst sem síðasta einræðisríki Evrópu. Mikill fjöldi stjórnarandstæðinga var þá handtekinn, en Tsikhanouskaja flúði land áður en hún var handtekin. Í útlegð hefur hún gagnrýnt Lúkasjenka harðlega fyrir stjórnarhætti sína og hvatt önnur ríki til að beita hvítrússnesku stjórninni viðskiptaþvingunum.
Greint var frá því í síðustu viku að Nóbelsverðlaunahafinn og aðgerðasinninn, Ales Bialiatski, hafi verið dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir fjársvik og að hafa fjármagnað ólögleg mótmæli. Dómurinn hefur víða verið fordæmdur.
Lúkasjenka hefur gegnt embætti forseta Hvíta-Rússlands frá árinu 1994, en hann er ötull bandamaður Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta.