Fjórir eru ákærðir í málinu, Páll Jónsson, timbursali á sjötugsaldri, auk þriggja manna sem allir eru í kringum þrítugt, Jóhannes Páll Durr, Daði Björnsson og Birgir Halldórsson. Þeir eru allir mættir í Héraðsdóm Reykjavíkur til að fylgjast með því sem fram fer.
Talsverður fjöldi fólks er í dómssal. Blaðamenn frá öllum helstu miðlum landsins auk lögregluliðs sem sá um að koma sakborningum á staðinn. Mennirnir hafa allir setið í gæsluvarðhaldi frá því að þeir voru handteknir í ágúst síðastliðnum.
Auk þess eru túlkar á staðnum sem túlka fyrir erlendu vitnin.
Hafa allir játað aðild
Mennirnir hafa allir játað að eiga þátt í fyrirhuguðum innflutningi á hundrað kílóum af kókaíni til landsins frá Brasilíu, með viðkomu í Hollandi.
Efnin voru falin í trjádrumbum sem fluttir voru inn í gámi af fyrirtæki Páls, Hús og Harðviður. Kókaínið barst hins vegar aldrei til Íslands þar sem lögreglan komst á snoðir um áformin og lét hollensku lögregluna vita. Tollverðir í Rotterdam fundu efnin og skiptu þeim út fyrir gerviefni.
Vísir fjallaði ítarlega um málið, vitnisburð mannanna, rannsakenda og annarra vitna á dögunum.

