Handbolti

Geta orðið fljótastir að vinna deildarmeistaratitilinn í 24 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stiven Tobar Valencia og Benedikt Gunnar Óskarsson hafa verið frábærir með Valsliðinu í vetur.
Stiven Tobar Valencia og Benedikt Gunnar Óskarsson hafa verið frábærir með Valsliðinu í vetur. Vísir/Diego

Valsmenn geta tryggt sér deildarmeistaratitilinn í Olís deild karla í handbolta með sigri á Gróttu á Hlíðarenda í kvöld.

Vinni Valsmenn leikinn þá ná þeir níu stiga forskoti á FH í öðru sætinu þegar aðeins fjórir leikir eru eftir og því bara átta stig eftir í pottinum.

Valur er ríkjandi deildarmeistari og getur unnið deildina í þriðja sinn á fjórum árum og í sjötta skipti samanlagt frá því að úrslitakeppnin var tekin upp árið 1992.

Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og hefst útsending klukkan 19.15 en leikurinn klukkan 19.30. Strax á eftir mun Seinni bylgjan svo gera upp alla átjándu umferðina.

Vinni Valsmenn leikinn í kvöld og þar með deildarmeistaratitilinn 3. mars þá yrðu þeir fljótastir til að tryggja sér heimavallarrétt út alla úrslitakeppnina síðan að Afturelding tryggði sér deildarmeistaratitilinn 28. febrúar 1999. Þeir gætu því orðið fljótastir til að vinna deildarmeistaratitilinn í 24 ár.

Á síðustu öld var deildin að klárast mun fyrr en hún gerir í dag og Valsmenn geta því ekki slegið þetta met sem þeir eiga reyndar sjálfir síðan þeir tryggðu sér deildarmeistaratitilinn 18. febrúar 1995. Þeir geta aftur á móti orðið fyrsta liðið til að vinna deildarmeistaratitilinn með fjóra leiki upp á að hlaupa.

Ekkert lið hefur náð að vinna deildina þegar fjórar umferðir eru enn eftir óspilaðar.

Þrjú Haukalið hafa unnið deildina þegar þrír leikir eru eftir en það eru Haukaliðin frá 2002, 2013 og 2016.

  • Fljótastir til að tryggja sér deildarmeistaratitilinn:
  • 18. febrúar - Valur 1995
  • 19. febrúar - FH 1992
  • 28. febrúar - Afturelding 1999
  • 3. mars - KA 1996
  • 10. mars - Haukar 1994
  • 13. mars - Afturelding 1997
  • 14. mars - Haukar 2016
  • 14. mars - Haukar 2013
  • 14. mars - Afturelding 2000
  • 19. mars - Haukar 2005
  • 20. mars - KA 1998
  • 21. mars - ÍBV 2018
  • -
  • Deildarmeistarar með flesta leiki eftir:
  • 3 leikir eftir
  • Haukar 2016
  • Haukar 2013
  • Haukar 2002
  • 2 leikir eftir
  • Haukar 2021
  • Akureyri 2011
  • Haukar 2010
  • Afturelding 2000
  • Afturelding 1999
  • Haukar 1994



Fleiri fréttir

Sjá meira


×