Atkvæðagreiðslan er rafræn og geta þeir sem eru aðilar að samningnum tekið þátt á vefsíðu embættis ríkissáttasemjara.
Verði miðlunartillagan samþykkt fá félagar í Eflingu sömu launahækkanir og í kjarasamningum annarra félaga Starfsgreinasambandsins sem náðust við SA í byrjun desembermánaðar. Launahækkanirnar verða afturvirkar frá 1. nóvember 2022.
Að auki er komið sérstaklega til móts við kröfur starfsfólks á hótelum og bílstjóra. Fyrir þá sem ekki geta greitt atkvæði rafrænt verður skrifleg atkvæðagreiðsla á kjörfundi á skrifstofu ríkissáttasemjara að Borgartúni á mánudag og þriðjudag. Þeir sem óska að greiða atkvæði á kjörfundi skulu hafa með sér skilríki.
Meðalhækkunin 42 þúsund krónur
Á vef ríkissáttasemjara má sjá að miðlunartillagan feli í sér að kauptaxtar aðalkjarasamnings hækki á bilinu 35 þúsund til 52.258 krónur á mánuði og sé meðalhækkun um 42 þúsund krónur.
„Hlutfallsleg hækkun kauptaxta er á bilinu 9.5% til 13% og meðalhækkun rúmlega 11% Hægt er að sjá hækkun taxta í miðlunartillögunni og reikna út launahækkanir hvers og eins í reiknivélinni.
Með tillögunni er stofnað nýtt starfsheiti, Almennt starfsfólk gistihúsa, sem að loknum þriggja mánaða reynslutíma raðast í launaflokk 6.
Mánaðarlaun félagsfólks sem tekur ekki laun samkvæmt kauptöxtum kjarasamnings hækka um 33.000 krónur frá 1. nóvember 2022,“ segir um samninginn.