Handbolti

Magdeburg endaði riðlakeppnina á naumum sigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði eitt mark í kvöld.
Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði eitt mark í kvöld. Eroll Popova/picture alliance via Getty Images

Íslendingalið Magdeburg vann nauman eins marks sigur er liðið tók á móti Dinamo Bucuresti í lokaumferð riðlakeppninnar í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld, .

Magdeburg hafði þegar tryggt sér annað sæti A-riðils fyrir leikinn í kvöld og liðið var því alltaf á leið beinustu leið í átta liða úrslit, sama hvernig leikur kvöldsins færi. Gestirnir frá Búkarest voru í svipaðri stöðu. Liðið gat hvorki endað ofar né neðar en fimmta sæti og er því á leið í 16-liða úrslit keppninnar.

Það var því lítið undir í leik kvöldsins, en hann varð þrátt fyrir það hin mesta skemmtun. Munurinn á liðunum varð aldrei meiri en þrjú mörk í fyrri hálfleik og heimamenn í Magdeburg leiddu með tveimur mörkum þegar flautað var til hálfleiks.

Magdeburgarliðið náði svo mest fimm marka forskoti í síðari hálfleik, en gestirnir gáfust ekki upp og náðu að jafna metin þegar rúmlega mínúta var til leiksloka. Það voru hins vegar heimamenn sem skoruðu seinasta mark leiksins og niðurstaðan varð eins marks sigur Magdeburg, 34-33.

Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði eitt mark fyrir Magdeburg í kvöld, en Ómar Ingi Magnússon var ekki með vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×