Handbolti

Aron fór á kostum í Meistaradeildarsigri Álaborgar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Aron Pálmarsson var frábær fyrir Álaborg í kvöld.
Aron Pálmarsson var frábær fyrir Álaborg í kvöld. Javier Borrego/Europa Press via Getty Images

Aron Pálmarsson var markahæsti maður vallarins með tíu mörk er Álaborg vann þriggja marka sigur gegn Celje í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í handbolta í kvöld, 34-31.

Álaborgarliðið hafði þegar tryggt sér fimmta sæti riðilsins og sæti í 16-liða úrslitum keppninnar. Celje sat hins vegar í sjöunda sæti fyrir leik kvöldsins og gat hvorki færst ofar né neðar og liðið því nú þegar úr leik.

Það var því ekki mikið undir í leik kvöldsins sem var hluti af lokaumferð riðlakeppninnar. Eftir jafnar upphafsmínútur náðu gestirnir frá Álaborg öruggu forskoti sem liðið lét aldrei af hendi og vann að lokum þriggja marka sigur, 34-31.

Aron var sem áður segir markahæsti maður vallarins með tíu mörk úr 14 skotum, en þar af skoraði hann tvö af vítapunktinum.

Í sama riðli skoraði Orri Freyr Þorkelsson tvö mörk fyrir Noregsmeistara Elverum er liðið gerði 26-26 jafntefli gegn Kiel, en Elverum endar þó í neðsta sæti riðilsins. Þá átti Viktor Gísli Hallgrímsson ekki sinn besta dag í marki Nantes er liðið gerði 28-28 jafntefli við Pick Szeged.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×