Samtök atvinnulífsins fengu stefnuna afhenda á föstudag en stefnan verður þingfest í Félagsdómi skömmu eftir klukkan fjögur síðdegis á morgun. Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ, segir þau telja að SA hafi ekki boðað til verkbanns með lögmætum hætti en þau höfða málið fyrir hönd Eflingar.
„Við fórum auðvitað yfir boðunina þegar hún kemur fram og mátum það sem svo að það væri tilefni til að láta á þetta reyna fyrir dómstólum og það kom beiðni þar að frá Eflingu. Auðvitað er þetta mál sem snertir verkalýðshreyfinguna í heild sinni og mikilvægt að fá úr því skorið hvort þetta sé gert með lögmætum hætti,“ segir Kristján.
Efling greindi upprunalega frá málinu í tilkynningu í gær en þar kemur fram að það sé meðal annars mat ASÍ að stjórn Samtaka atvinnulífsins hafi verið óheimilt að boða verkbann gegn félagsfólki Eflingar.
Þá eigi ójafnt atkvæðavægi félagsmanna SA í atkvæðagreiðslunni um verkbannið sér ekki lagastoð en allir félagsmenn SA greiddu atkvæði um verkbannið butrséð frá því hvort þeir starfi á félagssvæði Eflingar eða ekki. Einnig hafi verið tilteknir formgallar á boðuninni sem talið er að geri hana ólöglega.
Gera ráð fyrir niðurstöðu áður en til verkbanns kemur
Kristján vill ekki tjá sig efnislega um stefnuna að svo stöddu en segir að öll skjöl verði opinberuð á morgun. Þau séu viss í sinni sök.
„Við teljum að það sé rétt mat hjá okkur að það sé ekki búið að uppfylla lög um stéttarfélög og vinnudeilur með þessari boðun sem lögð er fram,“ segir hann.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við fréttastofu að þau séu ósammála stefnu ASÍ og telja niðurstöðu um verkbann standa. Þá munu þau taka til varna fyrir Félagsdómi. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um málið að svo stöddu.
Að sögn Kristjáns er fyrirvarinn stuttur, eðli máls samkvæmt.
„Það þarf að bregðast hratt við og það skýrir þennan tímapunkt eins og er,“ segir Kristján. „Ég geri ráð fyrir að niðurstaða muni liggja fyrir áður en til verkbanns myndi koma.“
Staðan sé þung og það birtist í átökum. Ríkissáttasemjari hefur ekki enn tekið ákvörðun um næstu skref eða hvenær næsti fundur verður boðaður og langt virðist enn milli deiluaðila.
„Það er auðvitað ekki staða sem að maður vill sjá á þessum tímapunkti en vonandi ná samningsaðilar að finna leiðina til þess að landa kjarasamningi eða ná niðurstöðu í þeirra mál,“ segir Kristján.