Öryggissveitir hafa smalað saman tugum þúsunda grunaðra félaga í glæpagengjum eftir að Bukele lýsti yfir neyðarástandi vegna morð- og ofbeldisöldu í landinu í mars í fyrra. Neyðarástandsyfirlýsingin hefur verið endurnýjuð ítrekað síðan, síðast í síðustu viku.
Mannréttindasamtök hafa gangrýnt neyðarástandið og aðfarir lögreglu. Það fellir viss stjórnarskrárbundin réttindi úr gildi sem hefur gert lögreglu kleift að handataka menn án handtökuskipunar. Yfirvöld geta fylgst með fjarskiptum grunaðra manna og fangar eiga ekki rétt á að ræða við lögmann, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Gagnrýnendur segja að saklaust fólk hafi verið handtekið og að tugir manna hafi látist í haldi lögreglu. Aðgerðirnar eru þrátt fyrir það almennt vinsælar á meðal almennings.
Bukele birti myndir af fyrstu föngunum sem voru sendir í nýtt risafangelsi í Tecoluca. Á þeim sjást þeir hlekkjaðir og aðeins klæddir í síðar hvítar stuttbuxur. Þeir eru allir krúnurakaðir og húðflúraðir í bak og fyrir.
Hoy en la madrugada, en un solo operativo, trasladamos a los primeros 2,000 pandilleros al Centro de Confinamiento del Terrorismo (CECOT).
— Nayib Bukele (@nayibbukele) February 24, 2023
Esta será su nueva casa, donde vivirán por décadas, mezclados, sin poder hacerle más daño a la población.
Seguimos #GuerraContraPandillas pic.twitter.com/9VvsUBvoHC
Forsetinn segir að tvö þúsund fangar hafi verið fluttir í fangelsið fyrir dögun. Fangelsið sé það stærsta í Ameríkunum.
„Þetta verður nýja húsið þeirra, þar sem þeir búa um áratugaskeið, blandaðir saman og geta ekki valdið almenningi frekara tjóni,“ tísti Bukele í gærmorgun.
Fangelsið er kallað Miðstöð til að loka á hryðjuverk. Það stendur saman af átta byggingum. Hver þeirra er með þrjátíu og tvo klefa sem eru hundrað fermetrar að flatarmáli. Hver klefi á að hýsa fleiri en hundrað fanga. Aðeins eru tveir vaskar og tvö klósett í hverjum klefa, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Fréttin hefur verið uppfærð.