Allar hníga umræddar breytingar í sömu átt, að hreinsa textann af hugmyndum og tungutaki sem kynni að skiljast þannig að það gæti reynst meiðandi fyrir einn eða annan minnihlutahópinn.
Orðið „feitur” - á ensku fat - hefur til dæmis verið tekið út úr öllum bókum Roald Dahl. Sums staðar er það bara þurrkað út og annars staðar breytt í „risavaxinn” (e. enormous). Oompa Loomparnir í sömu bók eru orðnir kynhlutlausir.
Matthildur er nú látin lesa bók eftir konu í stað bókar eftir karl í frístundum sínum - og norn í Nornunum sem er dulbúin sem afgreiðslukona í matvöruverslun er nú dulbúin sem framúrskarandi vísindakona. Heilu kvæðin í bókunum hafa verið samin upp á nýtt - og halda mætti áfram að þylja dæmi um breytingar, þær skipta hundruðum.
Rúnar segir vafasamt að fara í texta höfunda: „Við sjáum á þessum breytingum þarna að það er verið að koma með nýjar hugmyndir inn í verkið... Ef við ætlum að leyfa þetta, hvar endar það?“ Rúnar segir að það hlyti að koma svipur á fólk ef tilkynnt væri að til stæði að gera slíkt hið sama við texta Halldórs Laxness.

Rúnar bendir á að sálfræðin segi okkur að vandamálin og hið illa í lífinu sé til að horfast í augu við það og takast á við það, en ekki snúa sér í hina áttina og útiloka hugmyndirnar. Sú sé tilhneigingin nú um mundir með viðvörunum hvers konar við ýmsu efni (e. trigger warning).
„Ég held að þetta sé ekki það sem við þurfum,“ segir Rúnar. „Og að þetta hjálpi ekki sagnagerð almennt. Sagnagerð gengur almennt út á einhvers konar togstreitu. Ef við ætlum að taka illmennið út, svo við tölum bara einfalt mál, hvernig verða sögur? Fletjast þær ekki út? Það þarf alltaf einhverja togstreitu í sagnagerð. Ég sé ekki fyrir mér að þetta sé leiðin sem við þurfum að fara; að bara stinga höfðinu í sandinn.”
„Ég held að það sama eigi við í grundvallaratriðum um börn. Ævintýrin sýna vondan heim. Og þau venjast því frá unga aldri að þetta er viðsjárverður heimur, sem þarf að takast á við,“ segir Rúnar.

