Handbolti

Viktor í sigurliði Nantes gegn Elverum en Aron og félagar töpuðu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk fyrir Álaborg í kvöld.
Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk fyrir Álaborg í kvöld. Vísir/Getty

Aron Pálmarsson og félagar í Álaborg töpuðu á útivelli gegn Kielce í Meistaradeildinni í handknattleik í kvöld. Þá var Íslendingaslagur þegar Elverum tók á móti Nantes.

Aron og félagar í Álaborg áttu erfitt verkefni fyrir höndum þegar liðið mætti Kielce á útivelli. Fyrir leikinn í kvöld var Kielce í öðru sæti B-riðils með níu sigra í ellefu leikjum en Álaborg var í fimmta sætinu með níu stig.

Jafnt var á flestum tölum í fyrri hálfleik og staðan að honum loknum 15-15. Kielce byrjaði síðari hálfleikinn hins vegar af miklum krafti og var komið í sex marka forskot eftir rúmar tíu mínútur.

Þann mun náði danska liðið aldrei að brúa. Kielce hélt þeim í öruggri fjarlægð og vann að lokum fimm marka sigur, lokatölur 33-28.

Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk fyrir Álaborg í kvöld en Sebastian Barthold var markahæstur hjá Álaborg með sex mörk líkt og Arkadiusz Moryto skoraði hjá Kielce.

Viktor Gísli í leik dagsins.Vísir/Vilhelm

Í Noregi tóku Orri Freyr Þorkelsson og félagar á móti Viktor Gísla Hallgrímssyni og samherjum hans í Nantes. Elverum hafði aðeins unnið einn leik í Meistaradeildinni á tímabilinu og var í neðsta sæti B-riðils en Nantes í 3.-4.sæti ásamt Kiel með tólf stig.

Það var mikið skorað í leiknum í kvöld og lítið um markvörslu. Nantes leiddi 20-18 í hálfleik en náði fimm marka forskoti snemma í þeim síðari. Þeir héldu forystunni út leikinn og unnu að lokum sex marka sigur, 42-36.

Orri Freyr átti góðan leik fyrir Elverum í kvöld og skoraði fimm mörk úr sex skotum. Viktor Gísli átti erfiðan leik og varði aðeins eitt skot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×