Verkfall bílstjóra á höfuðborgarsvæðinu hjá olíufélögunum skall á klukkan tólf á hádegi. Von er á því að bensínstöðvar á höfuðborgarsvæðinu tæmist á næstu sólarhringum. Álag hefur verið á bensínstöðvum á höfuðborgarsvæðinu og suðvesturhorninu í vikunni. Borið hefur á því að fólk hafi mætt með stóra tanka og fyllt til lengri tíma.
„Bent er á að geymsla á olíuefnum í hýbýlum manna s.s. bílskúrum, í smærri útiskúrum eða við húsvegg getur verið mjög varasöm og valdið bæði íkveikju- og sprengihættu. Einnig er með öllu óheimilt að losa hvers kyns olíuefni í niðurföll eða önnur fráveitukerfi og skulu þau ætíð vera geymd í traustum lekabyttum þar sem tryggt er að efnin komist ekki niður í frárennslið,“ segir í tilkynningu frá Umhverfisstofnun.
Í ljósi frétta af verkfallsaðgerðum olíuflutningsbílstjóra og upplýsinga um að almenningur og rekstraraðilar séu að undirbúa söfnun varabirgða eldsneytis, vill Umhverfisstofnun benda á að við hvers kyns geymslu á olíuefnum gilda ákveðnar reglur sem bæði almenningur og rekstraraðilar þurfa að fylgja.
Í reglugerð um varnir gegn olíumengun frá starfsemi á landi, kemur fram hvaða kröfur skal uppfylla við geymslu á olíuefnum. Markmið reglugerðarinnar er m.a. að tryggja fullnægjandi mengunarvarnir á meðhöndlun olíuefna.