Þetta staðfesti Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar í samtali við fréttastofu.
„Mér barst svar fyrr í dag og fer á fund ráðherra ásamt félögum mínum í fyrramálið,“ segir Sólveig.
Markmið fundarins verði að koma mótmælum samninganefndar Eflingar á framfæri.
„Vegna framferðis ríkissáttasemjara, vegna þessarar aðfarar að Eflingu, að langstærsta stéttarfélagi láglaunafólks. Þar sem er verið með þessum grófa og ólöglega hætti verið að svipta okkur verkfallsréttinum og verið að þröngva einhverju upp á okkur sem við viljum ekki,“ segir Sólveig.
Í gærkvöldi birti Sólveig Anna bréf til Guðmundar þar sem hún krafðist fundar með honum í fyrramálið vegna útspils ríkissáttarsemjara hvað varðar miðlunartillögu hans.
„Ég óska því eftir að þú takir á móti mér að morgni mánudagsins næstkomandi 30. janúar. Ég legg þunga áherslu á að þú eigir fund með mér eigi síðar en á þeim tíma, þar sem seinna þann dag mun fara fram fyrirtaka í fyrrnefndu dómsmáli sem ríkissáttasemjari hefur höfðað og um kvöldið verða tilkynnt úrslit atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun Eflingarfélaga hjá Íslandshótelum,“ skrifaði Sólveig meðal annars í bréfinu.