Útlendingafrumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra er fimmta tilraun ýmist innanríkis- eða dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins til að koma í gegn breytingum á lögum um útlendinga frá árinu 2016. Stjórnarmeirihlutinn virðist staðráðinn í að málið fái afgreiðslu að þessu sinni því engin önnur mál eru til eiginlegrar efnislegrar meðferðar á dagskrá þingsins.
Frumvarpinu er ætlað að flýta umsóknarferli hælisleitenda og koma þeim fyrr úr landi sem hafnað er um hælisvist. Þannig missa þeir allan fjárhags- og félagslegan stuðning innan 30 frá því umsókn þeirra hefur alfarið verið hafnað og verða einnig að yfirgefa landið innan þess tíma. Hins vegar eru margar undantekningar í frumvarpinu varðandi meðferð mála barna og fleiri í viðkvæmri stöðu.
Að ræðum forseta Alþingis meðtöldum héldu þingmenn 149 ræður um málið á þingfundi í gær, á fundi sem hófst upp úr klukkan þrjú og lauk átta tímum síðar upp úr klukkan ellefu í gærkvöldi.

Þingmenn Pírata hafa haft sig mest í frammi gegn frumvarpinu að þessu sinni en þingmenn Samfylkingarinnar og Viðreisnar leggjast einnig gegn frumvarpinu meðal annars á þeim forsendum að það brjóti á hælisleitendum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins og flokkur hans leggjast hins vegar gegn frumvarpinu úr annarri átt. Telja það útvatnað og gagnslaust og vilja að gengið verði lengra. Sigmundur Davíð minnti á að nú væru þingmenn að ræða frumvarp af þessu tagi í fimmta sinn.
„Þetta ræksni, þetta útþynnta og örvinglaða frumvarp. Þessi svo kallaða málamiðlun milli skynsemishyggju og fullkominnar vitleysu. Þetta sýnishorn yfirgefinna áforma, umvafið afsökunum og kerfisflækjum. Þessi uppgjöf,“ sagði Sigmundur Davíð.
Umræðum er hvergi nærri lokið og verður þráðurinn tekinn upp aftur á þingfundi sem hefst klukkan þrjú í dag.