Bradley Pryer, 24 ára og Cain Adams 23 ára voru á leið í flug til Keflavíkur frá Stansted flugvelli í apríl síðastliðnum.
Fram kemur á vef My London News að fíkniefnaleitarhundar hafi merkt mennina tvo. Við nánari leit kom í ljós að þeir voru með efnin falin innvortis. Fram kemur að styrkleiki efnisins hafi verið hár og að götuverðið á efnunum í Bretlandi sé sex þúsund pund, rúmlega milljón íslenskar krónur. Wales Online fjallar einnig um málið.
Málið var rannsakað af of Operation Venetic, teymi á vegum Scotland Yard og NCA (National Crime Agency) í Bretlandi.
Rannsókn leiddi í ljós að Bradley Pryer hefur verið umfangsmikill á fíkniefnamarkaðnum í Bretlandi og átt samskipti við aðra sala í gegnum dulkóðaða samskiptaforritið EncroChat. Svo virðist sem að Bradley hafi verið höfuðpaurinn í að smygla efnunum til Íslands en fram kemur að fyrir handtökuna hafi hann reglulega verið í samskiptum við Robert Smith, dæmdan fíkniefnasmyglara.
Skilaboð frá Bradley Pryer gáfu til kynna að uppi hafi verið áform um að smygla álíka magni til Íslands vikulega og með sama hætti, það er að segja með því að nota burðardýr.

Reiðubúnir að fórna lífinu
Mennirnir voru báðir ákærðir fyrir tilraun til fíkniefnainnflutnings og Bradley Pryer var þar að auki ákærður fyrir þrjú önnur fíkniefnabrot. Þeir játuðu báðir sök fyrir dómi í október síðastliðnum. Bradley Pryer hlaut 12 ára fangelsisdóm og Cain Adams hlaut tveggja ára skilorðsbundinn dóm.
Í yfirlýsingu sem gefin var út eftir dómsuppkvaðninguna sagði Andrew Tickner, fulltrúi Organised Crime Partnership að Bradley Pryer hefði skipulagt sölu á umtalsverðu magni af ólöglegum fíkniefnum, og væri þar að auki með umfangsmikil tengsl í undirheimunum.
„Hann og Cain Adams voru meira að reiðubúnir að fórna lífinu með því að reyna að smygla kókaíni frá Bretlandi í von um aukinn gróða á Íslandi.“
Fylgni á milli neyslu og efnahags
Þess má geta að samkvæmt verðkönnun SÁÁ frá því í júní á seinasta ári kostar slagið af kókaíni hér á landi 17.000 krónur.
Í samtali við Morgunblaðið sagði Valgerðar Rúnarsdóttur, forstjóri Vogs að verðið réðist alfarið af framboði og eftirspurn og bersýnileg fylgni er milli neyslu kókaíns og efnahags. Verðbólgan smitast ekki yfir í fíkniefnamarkaðinn, enda fer hann ekki í gegnum neinar hefðbundnar boðleiðir þar sem hækkun launa, mannekla og hrávöruskortur hafa áhrif.