Frostið nær yfir allt landið en veðurstofan spáir allt frá fimm stiga frosti upp í tuttugu stig, bæði í dag og á morgun, samhliða tiltölulega hægum vindi og bjartviðri. Höfuðborgarsvæðið fær sinn skerf af kuldanum og Veitur eru í viðbragðsstöðu vegna þessa með tilliti til hitaveitu.

„Það er mikið rennsli og eins og dagurinn er í dag, við erum í hámarksrennsli ársins í fyrra. En þetta lítur samt alveg vel út og við erum ekki með neinar skerðingar í gangi og teljum ekki að við þurfum að fara í neinar skerðingar, alla vega ekki í dag,“ segir Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna.
Ef að kuldakastið heldur áfram, og til dæmis vindkæling fylgir með, eða ef eitthvað óvænt kemur upp á þá geti það breyst. Íbúar geti brugðist við með ýmsum hætti en níutíu prósent af vatninu fer til húshitunar.
„Það er aðallega að passa að við séum með rétt stillta ofna og gólfhitakerfi, að við séum ekki að byrgja ofna til dæmis með síðum og þykkum gluggatjöldum eða sófum eða eitthvað slíkt. Við viljum nýta vatnið vel og fara vel með og spara orkukostnað fyrir heimilin eins og hægt er,“ segir Sólrún.
Einnig er fólk hvatt til að forðast það að hafa opið út til lengri tíma, þó það þurfi vissulega að lofta út. Ítarlegar leiðbeiningar um hvað fólk getur gert má finna á vef Veitna.
Neyðarskýlin opin líkt og sundlaugarnar
Kuldinn hefur kallað á einhverjar aðgerðir af hálfu Reykjavíkurborgar en neyðaráætlun í málaflokki heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir var virkjuð fyrir helgi. Sólarhringsopnun er í neyðarskýlum í dag og á morgun vegna kuldans.
Margir almennir notendur eru þá brenndir eftir kuldakastið í desember þar sem sundlaugum var lokað. Það stefnir þó ekki í það í borginni eins og er, alla vega ekki í Laugardalslaug.
„Það er ekki planið, við gerum ráð fyrir að halda bara óslitinni opnun núna áfram og við ætlum bara að halda áfram að standa okkar vakt. Það er alveg pottþétt,“ segir Árni Jónsson, forstöðumaður Laugardalslaugar.
Sundáhugamenn þurfi ekki að hafa áhyggjur nema ástandið verði viðvarandi.
„Margir dagar með fimmtán stiga frosti og svoleiðis gætu kannski farið að bíta svolítið í en þá biðjum við bara borgarbúa um að vera duglegir að spara heita vatnið. Það er eitthvað sem myndi hjálpa okkur mikið, þá komast allir í sund,“ segir Árni léttur í bragði.