Fram kemur í fréttatilkynningu að tilgangur verkefnisins sé að þróa og prófa nýsköpunarlausnir í orkuskiptum á sjó sem geti dregið úr losun gróðurhúsaloftegunda hjá flutningaskipum. Lausnirnar felist í blöndu af sólar- og vindorkutækni ásamt þróun á rafstýrðum seglum og geymslulausnum fyrir rafmagn.
Áætlað er að hægt sé að draga úr edsneytisnotkun tanskipa um 30 prósent og gámaskipa um að lágmarki 15 prósent. Fram kemur að skipaflutningar losi 2,5 prósent gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu og því geti verkefnið haft mikið að segja fyrir umhverfið.
„Við erum stolt að hafa verið valin til að stýra þessu spennandi nýsköpunarverkefni. Það fellur vel að áherslum okkar um orkuskipti, sjálfbærni og nýsköpun og það skiptir líka máli að íslensk fyrirtæki taki þátt í þeirri þróun sem á sér stað erlendis á þessum vettvangi,“ er haft eftir Kjartani Due Nielsen, verkefnastjóra nýsköpunar hjá Verkís í tilkynningu.
Þátttökufyrirtækin í verkefninu eru: Verkís, SideWind, Samskip, BBA//FJELDCO og Athygli frá Íslandi; Canoe, Ayro og Stirling Design International frá Frakklandi; Solbian, Ant Topic og Dotcom frá Ítalíu; Nav-Tech frá Hollandi; Lloyds Register frá Bretlandi og Inspiralia GmbH frá Austurríki.