Alls greiddu tæplega 82 prósent félagsmanna atkvæði með samningi VR við Samtök atvinnulífsins, sem var undirritaður í síðustu viku. Af tæplega 40 þúsund félagsmönnum greiddi um fjórðungur atkvæði, sem er metþátttaka. Þá var samningur VR við Félag atvinnurekenda einnig samþykktur í dag.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir niðurstöðuna hafa verið mjög afgerandi en sjálfur hafði hann sagt eftir undirritun í síðustu viku að þau hafi ekki komist lengra í viðræðunum.
„Ég held að okkar fólk hafi alveg vitað í hvaða fasa við værum að fara ef að þessi samningur yrði felldur, það er að segja að fara þá í að gera atlögu að lengri samningi með tilheyrandi átökum. Þannig ég held að fólk hafi bara tekið upplýsta ákvörðun,“ segir Ragnar.
Félagsmenn í Starfsgreinasambandinu samþykktu sinn samning fyrr í vikunni með afgerandi meirihluta en alls er þar um að ræða um 72 þúsund manns og eru því tvö stærstu félögin komin með samninga.

Þriðja stærsta félagið, Efling, hefur ekki enn náð að semja fyrir sína félagsmenn, sem voru að meðaltali 26 þúsund talsins í fyrra. Meira en helmingur allra sem eru á vinnumarkaði eiga aðild að þessum þremur verkalýðsfélögum.
Ragnar segir þungt að horfa á eftir félögum sínum með ókláraðan samning en Efling fundar hjá ríkissáttasemjara á morgun með nýju tilboði.
„Mín von er bara sú að hreyfingin geti staðið þéttar saman í aðdraganda næstu kjarasamninga eða langtímasamnings. Ég vona bara að það gangi eftir og ég vona að Efling nái að landa góðum samningi fyrir sitt fólk eins fljótt og hægt er,“ segir Ragnar.
Stjórnvöld geti auðveldað næstu samninga með því að grípa til aðgerða á húsnæðismarkaði og setja neyðarlög á leigumarkaði. Þörf sé á neyðaraðgerðum þar sem óvissan sé áfram mikil hjá fólkinu í landinu.
„Þarna hefði ég viljað sjá stjórnvöld stíga sterkara inn í og okkur í verkalýðshreyfingunni mynda meiri þrýsting. Þetta eru stóru viðfangsefnin en eina óvissan sem er í atvinnulífinu er bara hversu mikið meiri hagnaðurinn verður í ár miðað við metárið í fyrra,“ segir Ragnar.