AP segir frá því að fimmtán drónar, sem framleiddir eru í Íran, hafi verið skotnir niður af hinu úkraínska loftvarnakerfi. Rússar hafa í stríðsrekstri sínum meðal annars notast við vopn frá Íran.
Rússar hafa á síðustu dögum hert árásir sínar á Úkraínu og Kænugarð þar með talinn.
Yfirvöld í Kænugarði segja að tuttugu drónum hafi verið skotið á borgina en að tekist hafi að skjóta niður fimmtán þeirra. Árásunum á að hafa verið beint að nauðsynlegum innviðum borgarinnar og segir Klitschko á samfélagsmiðlum að heyrst hafi í sprengingum í hverfunum Solomyanskí og Sjevtsjenkivskí.
Borgarstjórinn tilkynnti síðar að svo virðist sem að ekkert manntjón hafi orðið í árásunum í morgun.
Ríkisstjórinn Oleksej Kuleba segir hins vegar á Telegram að drónarnir hafi hæft fjölda bygginga og segir hann að tveir hafi særst.
Rússar hafa á síðustu vikum og mánuðum beint árásum sínum að nauðsynlegum innviðum í Úkraínu. Eftir árásirnar síðasta föstudag voru um sex milljónir Úkraínumanna án rafmagns. Þá var hitaveita borgarinnar óvirk í tvo daga eftir sömu árásir.