Mikið hefur verið fundað í Karphúsinu í dag og segir Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari stöðuna vera snúna. Aðspurður hvernig málunum miðar áfram segir hann samninganefndir vera að leggja mikla vinnu á sig.
„Við erum búin að eiga mikið af fundum í dag, bæði í stórum hóp og síðan í minni vinnuhópum […]. Ég er gríðarlega ánægður með samninganefndirnar og þá miklu vinnu sem að þau eru að leggja á sig.“
Í lok dagsins í dag verði áætlun fyrir morgundaginn sett upp.
Aðalsteinn segir tímann leiða í ljós hvort að vinnan klárist fyrir jól. Hann sé ánægður með vinnu samninganefnda og geti ekki beðið um meira.
„Já það er virkilega góð vinna í gangi en meira get ég eiginlega ekki sagt. Við skulum sjá til hvernig þessu vindur fram en á meðan fólk situr við og er að leita leiða og prófa mismunandi lausnir að þá höldum við vonglöð áfram,“ segir Aðalsteinn að lokum.
Viðtalið við Aðalstein má sjá í spilaranum hér að ofan og hefst það á 02:23.