Skipverjinn féll útbyrðis á laugardag og hefur verið staðið yfir umfangsmikilli leit frá þeim tíma.
Í gær var ákveðið að notast við neðansjávarfar frá Teledyne Gavia við leitina og hélt sú leit áfram fram á kvöld og í alla nótt að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar.
„Það var leitað með þessu neðansjávarfari alveg núna til klukkan tíu og síðan á eftir að yfirfara þau gögn sem að fengust í þessum ferðum sem að neðansjávarfarið var látið fara á þessum skilgreindu leitarferlum sem að voru settir upp í gær, þannig að það getur tekið einhvern tíma,“ segir Ásgeir.
Neðansjávarfarið verður nú tekið upp úr sjó og farið yfir gögnin. Á meðan verður hlé gert á leitinni en staðan tekin aftur síðar í dag.
Áhersla er lögð á svæðið við Garðskagavita þar sem talið er að maðurinn hafi fallið fyrir borð. Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum voru öryggismyndavélar um borð í skipinu þegar slysið varð en engin upptaka er þó til.
Skipverjans sem er saknað heitir Ekasit Thasaphong og er fæddur árið 1980. Hann er búsettur í Grindavík ásamt eiginkonu og þremur börnum.