Handbolti

Ýmir og félagar höfðu betur gegn lærisveinum Guðjóns Vals

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ýmir og félagar eru í þriðja sæti deildarinnar.
Ýmir og félagar eru í þriðja sæti deildarinnar. Vísir/Getty

Rhein-Neckar Löwen vann góðan útisigur á Gummersback í þýska handboltanum í dag. Ýmir Örn Gíslason lék í vörn Löwen og þeir Elliði Snær Viðarsson og Hákon Daði Styrmisson voru í liði Gummersbach.

Fyrir leikinn í dag var Rhein-Neckar Löwen í þriðja sæti þýsku úrvalsdeildarinnar en Gummersbach, sem eru nýliðar í deildinni og undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar, í níunda sætinu.

Heimamenn í Gummersbach byrjuðu betur í dag og komust í 3-1 strax í upphafi en Rhein-Neckar tók síðan frumkvæðið og leiddi með einu til tveimur mörkum fram að hálfleik en þá var staðan 18-16 gestunum í vil.

Síðari hálfleikur þróaðist á svipaðan hátt til að byrja með. Rhein-Neckar Löwen var skrefinu á undan, komst í þriggja marka forskot í stöðunni 25-22 en Gummersbach skoraði þá fjögur mörk í röð og komst í 26-25.

Gestirnir í Rhein-Neckar voru hins vegar sterkari á lokasprettinum. Þeir breyttu stöðunni úr 28-27 fyrir Gummersbach yfir í 31-28 sér í vil og það bil náðu heimamenn ekki að brúa. Lokatölur 32-29 og Ýmir Örn og félagar því áfram í þriðja sæti deildarinnar.

Ýmir Örn komst ekki á blað hjá Rhein-Neckar í dag en lét til sín taka í vörninni og var einu sinni rekinn út af í tvær mínútur.

Hákon Daði Styrmisson átti fínan leik fyrir Gummersbach og skoraði fimm mörk úr sex skotum og þá skoraði Elliði Snær Viðarsson eitt mark auk þess að spila varnarleikinn af krafti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×