Vegagerðin hafði áður boðað útboð síðastliðið vor og að ritað yrði undir verksamning um miðjan júní svo að framkvæmdir hæfust um mitt síðastliðið sumar, eins og fram kom í þessari frétt. Kaflinn þykir það varasamur að þar er aðeins leyfður 80 kílómetra hraði, meðan 90 kílómetra hraði er leyfður á öðrum köflum þar sem umferðareyja og vegrið skilja að akstursstefnur.
Þá hafði ráðherrann verið spurður að því í sumarbyrjun, vegna boðaðra aðgerða ríkisstjórnarinnar gegn þenslu, hvort fresta ætti nýjum útboðum, eins og breikkun Reykjanesbrautar. Þá sagði hann að ákveðin verkefni hefðu verið sett í forgang og nefndi fyrst Dynjandisheiði.
„Það sama gildir um Reykjanesbrautina. Það eru mál sem eru í forgangi,“ sagði Sigurður Ingi í viðtali í fréttum Stöðvar 2 í júní.

Ráðherrann var í þættinum Bítið á Bylgjunni í síðustu viku spurður um ástæður tafa á útboði Reykjanesbrautar.
„Það er aldeilis ekki verið að tefja,“ sagði ráðherrann.
„Það hafa allskonar breytingar komið upp sem þurfti að bregðast við. Skipulags, landeigenda..,“
-Var ekki búið að leysa það?
„Ekki allt saman. Og síðan er verið að setja upp þarna mjög áhugaverða verksmiðju, verið að dæla niður koltvísýringi og það þarf að samtvinna það við. Mér sýnist þetta ganga allt ágætlega.
Við þurfum að halda að okkur fjármunum og verðin hækkuðu um fjörutíu prósent. Þannig að við gátum ekki boðið þetta út í haust, eins og til stóð. En Reykjanesbrautin verður boðin út eftir áramót, þessi kafli; Krýsuvík – Hvassahraun,“ sagði Sigurður Ingi.
Hér má heyra samtalið í þættinum: