Í samtali við Reuters segir Philip Ingram, fyrrverandi starfsmaður leyniþjónustu breska hersins, að Úkraínumenn séu með frumkvæðið í átökunum og geti ákveðið hvar og hvenær barist er á víglínunum í Úkraínu. Þeir gætu til að mynda ákveðið að gera gagnárásir nærri Bakhmut í austurhluta landsins, þar sem Rússar hafa reynt að sækja fram um mánaða skeið en án mikils árangurs.
„Veturinn mun hægja á átökunum en hann mun ekki stoppa þá. Úkraínumenn eru vel undirbúnir fyrir áframhaldandi átök í gegnum veturinn. Rússarnir eru verr undirbúnir til að lifa kuldann af,“ sagði Ingram.
Rússneskir herbloggarar, sem mynda nokkuð stórt og virkt samfélag þar sem margir eru með heimildarmenn í rússneska hernum, segja Úkraínumenn vera að fylkja liði á nokkrum stöðum og það sé til marks um væntanlegar sóknir gegn Rússum.
Ukrainian Mi-24 helicopters attack Russian positions pic.twitter.com/IWdwI4Qsez
— Paul Jawin (@PaulJawin) November 15, 2022
Segir Rússa berskjaldaða
Ben Hodges, fyrrverandi herforingi í Bandaríkjaher, sagði Úkraínumenn ekki þurfa að drífa sig yfir Dniproá á meðan þeir tryggja stöðu sína á vesturbakkanum og færa stórskotaliðsvopn framar til að skjóta á Rússa á austurbakkanum.
Einn af talsmönnum Úkraínuhers segir Rússa vera að flytja hermenn sína frá austurbakka Dnipro, til að koma þeim undan stórskotaliðsárásum Úkraínumanna.
Hodges sagði Rússa í suðurhluta landsins berskjaldaða gagnvart árás úr austri. Úkraínumenn gætu keyrt suður frá Kharkív og alla leið að ströndum Asóvhafs. Þannig gætu Úkraínumenn náð Maríupól aftur, auk Berdyans og Melitopol.
Rússar sjálfir virðast átta sig á þessari hættu en gervihnattamyndir hafa sýnt að þeir eru að byggja upp varnir á norðanverðum Krímskaga. Það gefur til kynna að þeir búist ekki við því að halda aftur af Úkraínumönnum í Kherson-héraði.
Slík sókn gæti einnig mögulega gert Úkraínumönnum kleift að gera árásir á Kerch-brúnna milli meginlands Rússlands og Krímskaga og þannig einangrað hersveitir Rússa á Krímskaga.
Í tístinu hér að neðan, sem er frá bandarísku hugveitunni Institute for the study of war, má sjá kort sem sýna grófa mynd af víglínunum í Úkraínu.
The #Russian MoD escalated claims of Russian territorial gains in #Donetsk Oblast on November 13 and 14, likely to emphasize that Russian forces are intensifying operations in Donetsk Oblast following withdrawal from the right bank of #Kherson Oblast. https://t.co/dJqNr4J4hO pic.twitter.com/d62oCgh2LF
— ISW (@TheStudyofWar) November 15, 2022
Rússar munu hafa eitthvað um framvindu mála á víglínunum í Úkraínu að segja. Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir að allt að þrjátíu þúsund hermenn hafi hörfað frá vesturbakka Dnipro og þar á meðal eiga að vera bestu og reynslumestu sveitir Rússa.
Lítið er vitað um raunverulegt ástand þessara hersveita en þær munu hafa verið á víglínum í Kherson án hvíldar í marga mánuði. Rússar munu þó líklegast geta notað þær sveitir annarsstaðar en Wall Street Journal segir Rússa sjá færi á Úkraínumönnum í austri.
Rússar hafa um langt skeið herjað á Úkraínumenn nærri Bakhmut í austurhluta landsins en það hefur reynst Rússum mjög kostnaðarsamt og skilað takmörkuðum árangri. Sérfræðingum þykir líklegt að Rússar muni vilja einbeita sér að því að ná fullum tökum á Donetsk- og Luhansk-héruðum, sem saman mynda Donbas-svæðið en spurningin er hvort Úkraínumenn muni gera þeim það erfitt.
Ummæli herforingja féllu í grýttan jarðveg
Mark Milley, formaður herforingjaráðs Bandaríkjanna, sagði í síðustu viku að Úkraínumenn gætu ef til vill ekki unnið hernaðarsigur í átökunum gegn innrás Rússa og að veturinn biði upp á tækifæri fyrir Úkraínumenn til að hefja viðræður við ráðamenn í Rússlandi.
Þessi ummæli féllu í grýttan jarðveg í Kænugarði og hafa bandarískir embættismenn varið undanförnum dögum í að segja Úkraínumönnum að Milley hefði ekki ætlað sér að grafa undan baráttu þeirra.
Úkraínumenn segjast þegar hafa sýnt fram á að þeir hafi burði til að reka Rússa á brott, þeir þurfi bara vopn. Nú þegar hafa Rússar verið reknir frá rúmum helmingi þess landsvæðis sem þeir hafa hernumið eftir að innrásin hófst í febrúar.
Nauðsynlegt að sigra Rússa
Úkraínumenn segja nauðsynlegt að sigra Rússa og reka þá á brott frá Úkraínu. Það sé eina leiðin til að tryggja frið því allar málamiðlanir við Rússa muni hafa alvarlegar afleiðingar og muni eingöngu frysta átökin.
Þá segjast þeir hafa lítið tilefni til að treysta Rússum til að standa við mögulegt samkomulag og það myndi eingöngu gefa Pútín tíma til að byggja upp her sinn að nýju og gera aðra innrás.
Ráðamenn í Úkraínu hafa einnig varpað fram spurningum um það hvernig þeir eigi að ræða við leiðtoga Rússlands sem hafi ítrekað lýst því yfir að úkraínska þjóðin sé ekki raunveruleg og að hún eigi að tilheyra Rússlandi.
Valeriy Zaluzhnyy, formaður herforingjaráðs Úkraínu, og Milley ræddu stöðuna í Úkraínu í gær og eftir það birti Zaluzhnyy tíst þar sem hann sagðist hafa gert Milley ljóst að Úkraínumenn myndu berjast til hins síðasta, eða þar til öll Úkraína hefur verið frelsuð.
Málamiðlanir kæmu ekki til greina.
In a conversation with #GenMilley, Chairman of @thejointstaff, thanked for everything done for us by the people. Assured, we ll fight until we have no strength. Our goal is to liberate the whole land. soldiers will accept no negotiations, agreements or compromise solutions. pic.twitter.com/j4hv6HStvJ
— Commander-in-Chief of the Armed Forces of Ukraine (@CinC_AFU) November 14, 2022
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sló á svipaða strengi í gær og sagði að það væri Úkraínumanna að ákveða hvaða skilyrði þurfi að uppfylla fyrir mögulegar viðræður.
„Við ættum ekki að gera þau mistök að vanmeta Rússa. Þeir stjórna enn stórum hlutum Úkraínu. Það sem við ættum að gera er að styrkja stöðu Úkraínumanna,“ sagði Stoltenberg.
Ræddu kjarnorkuvopn í Tyrklandi
William Burns, yfirmaður Leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA) fundaði í gær með Sergei Naryshkin, yfirmanni leyniþjónustu Rússlands á erlendri grundu (SVR), í Tyrklandi. Talsmaður þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins sagði blaðamönnum í gær að á þeim fundi hefðu mennirnir rætt hótanir Rússa varðandi kjarnorkuvopn og bandaríska ríkisborgara sem eru í haldi í Rússlandi.
„Hann [Burns] er að koma til skila skilaboðum um afleiðingar þess ef Rússar notuðu kjarnorkuvopn og hættuna á stigmögnun,“ hefur Wall Street Journal eftir áðurnefndum talsmanni.

Bandaríkjamenn segjast enn ekki sjá nein ummerki um aukna starfsemi meðal þeirra hersveita sem halda utan um kjarnorkuvopn Rússlands. Ráðamenn í Rússlandi hafa ítrekað rætt mögulega notkun kjarnorkuvopna í Úkraínu en Vladimír Pútín, forseti, sagði í síðasta mánuði að slíkt þjónaði engum tilgangi og Rússar hefðu enga þörf á því að nota kjarnorkuvopn.
New York Times hefur eftir heimildarmönnum sínum að leiðtogar í Bandaríkjunum og Evrópu líti svo á að þeir þurfi að tryggja að stríðið í Úkraínu teygi anga sína ekki út fyrir landamæri Úkraínu og Rússlands og koma í veg fyrir mögulega notkun kjarnorkuvopna eða annarra gereyðingarvopna.
Slæmt gengi Rússa á víglínunum í Úkraínu hafa aukið á áhyggjur ráðamanna í Vesturlöndum.
Burns og Naryshkin ræddu einnig þau Brittney Griner og Paul Whelan, sem eru í fangelsi í Rússlandi.
GoPro footage from a French volunteer combatant in Ukraine during an assault on Russian positions.#Russia #Ukraine pic.twitter.com/hIkDRsZTC2
— BlueSauron (@Blue_Sauron) November 15, 2022
Sakaði Rússa um að smíða geislamengandi sprengju
Vólóldímír Selenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði leiðtoga G-20 ríkjanna á fundi þeirra á Balí í Indónesíu í morgun en þar sagði hann að viðræður við Rússa yrðu að vera á forsendum Úkraínumanna.
„Ég er sannfærður um að komið sé að þeim tíma að það verður og er mögulegt að binda enda á tortímingarstríð Rússa. Þúsundum lífa yrði bjargað,“ sagði Selenskí en ítrekaði að allar viðræður yrðu að eiga sér stað á þeim forsendum að Úkraína héldi yfirráðum yfir landamærum sínum.
Selenskí sagði ekkert afsaka hótanir Rússa um kjarnorkustríð og þakkaði G19-ríkjunum, það er að segja G20 án Rússa, fyrir að gefa það skýrt til kynna. Þá sagði hann Rússa hafa unnið að smíðum geislamengandi sprengju í Zaporizhzhia-kjarnorkuverinu, sem gæti sprungið þá og þegar.
Sjá einnig: Segir tímabært að binda enda á átökin en á forsendum Úkraínumanna
Ávarp Selenskís, og þau skilyrði sem hann nefndi má sjá í Facebookfærslunni hér að neðan.
Aukin gagnrýni í Rússlandi
Blaðamenn sem vakta rússneska ríkismiðla og sjónvarpsstöðvar segja gagnrýni á stríðsrekstur Rússa í Úkraínu hafa aukist síðan Rússar hörfuðu frá Kherson. Þeirra á meðal er Francis Scarr, blaðamaður BBC.
Hann birti tvö myndbönd í gærkvöldi og í morgun sem varpa ljósi á það sem hann segir vera mestu gremjuna sem hann hafi séð hingað til. Í öðru þeirra er gestur í vinsælum umræðuþætti að velta vöngum yfir því hver raunveruleg markmið hinnar sértæku hernaðaraðgerðar, eins og Rússa eiga til að kalla innrásina í Úkraínu, séu.
Sjá einnig: Tóku eigin málaliða af lífi með sleggju
Gestur í öðrum þætti kvartaði yfir því að Úkraínumenn væru að hlægja að Rússum og kallaði þá sem tala um að Rússar muni sækja fram að landamærum Póllands trúða.
Eins og áður beinist gagnrýnin þó aldrei beint að Vladimír Pútín, forseta Rússlands. Þess í stað beinist hún að ráðgjöfum hans og forsvarsmönnum hersins.
It's taken them a while, but the pundits on Russian state TV are starting to question the objectives of the invasion of Ukraine
— Francis Scarr (@francis_scarr) November 14, 2022
Dmitry Abzalov says that it would nice to know what they actually are "for a change" pic.twitter.com/CxV5a6zMs6
Mikil kaflaskipti í átökunum
Rússar skutu í dag fjölda eldflauga á skotmörk í Úkraínu og þar á meðal í Kænugarði. Þegar þetta er skrifað hafa ekki borist fregnir um það hver mörgum var skotið, hve margar voru skotnar niður og hvaða skotmörk þær hæfðu, fyrir utan það að tvö íbúðarhús í Kænugarði eru sögð hafa orðið fyrir eldflaugum.
Árásum sem þessum, sem hafa margar beinst að borgaralegum skotmörkum, hefur fjölgað samhliða slæmu gengi Rússa á víglínunum í Úkraínu.
Russia s war on Ukrainian civilians. Residential buildings hit by cruise missiles in central Kyiv today. Video just posted by the deputy head of presidential administration. pic.twitter.com/lJRSZYcuFD
— Yaroslav Trofimov (@yarotrof) November 15, 2022
Hersveitir Rússa hafa ekki sótt fram svo máli skiptir í Úkraínu um mánaðaskeið. Rússar hafa þó hernumið rústir nokkurra þorpa nærri Bakhmut í austurhluta Úkraínu. Þar hafa málaliða Wagner group herjað á Úkraínumenn um langt skeið en án mikils árangurs.
Frelsun Kherson-borgar markar líklegast mikil þáttaskil í átökunum. Hersveitir sem eiga að vera þær bestu og reynslumestu í rússneska hernum tókst að hörfa og munu geta tekið þátt í átökum annars staðar á víglínum.
Það sama á þó einnig við um Úkraínumenn, sem eru með frumkvæðið í átökunum og munu þar af leiðandi geta ráðið því hvar barist er. Það er gífurlega mikilvægt og gerir Úkraínumönnum kleift að stýra framvindunni að miklu leyti og þvinga Rússa til að bregðast við aðgerðum þeirra.
Mestar líkur eru á því að þungamiðja átakanna færist til austurs og mögulega í átt að Asóvhafi. Hvar Úkraínumenn sjá færin gegn Rússum mun þó koma betur í ljós á næstu dögum og vikum.
