Handbolti

Teitur og félagar stukku upp í þriðja sætið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Teitur Örn Einarsson og félagar hans í Flensburg klífa upp töfluna.
Teitur Örn Einarsson og félagar hans í Flensburg klífa upp töfluna. Axel Heimken/picture alliance via Getty Images

Teitur Örn Einarsson og félagar hans í Flensburg stukku upp í þriðja sæti þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta er liðið vann góðan tveggja marka sigur gegn HC Erlangen í kvöld, 31-29.

Eins og lokatölurnar gefa til kynna var leikurinn jafn og spennandi frá upphafi til enda. Heimamenn í Flensburg náðu mest þriggja marka forskoti í fyrri hálfleik, en staðan var 15-13, Flensburg í vil, þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Teitur og félagar héldu tveggja til þriggja marka forystu stærstan hluta síðari hálfleiksins, en gestirnir bitu þó frá sér og jöfnuðu metin í stöðunni 24-24. Eftir það skiptust liðin á að skora, en Flensburg sigldi þó fram úr á seinustu mínútum leiksins og vann að lokum góðan tveggja marka sigur, 31-29.

Teitur hafði hægt um sig í liði Flensburg og skoraði aðeins eitt mark, en sigurinn lyftir liðinu úr fimmta sæti deildarinnar og upp í það þriðja. Flensburg er nú með 17 stig eftir 12 leiki, tveimur stigum meira en Erlangen sem hefur leikið einum leik minna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×