Þetta kemur fram í tilkynningu frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Örnin sem drapst í fyrra bar senditæki og því tókst Náttúrufræðistofnun Íslands að sækja hræið og láta rannsaka það. Fylgst var með erninum frá því í júlí og fannst hann svo dauður í október.
Þegar hræið var sótt hafði örninn verið dauður í þrjár vikur. Hann var heill að sjá en lítillega farinn að rotna og var músétinn á nokkrum stöðum. Hræið var fryst og sent til rannsókna í Þýskalandi. Í apríl á þessu ári lágu niðurstöður flensugreiningar fyrir.
Í sumar voru senditæki sett á fjórtán arnarunga. Þrír þeirra drápust í haust en tekið var sýni úr einu hræi. Reyndist hann vera með skæða fuglaflensu.