Tintron er með nokkra stóra dósagáma staðsetta hér og þar í sveitarfélaginu og hafa þeir gefið sveitinni miklar tekjur enda mikið af sumarbústaðafólki og ferðamönnum á svæðinu, sem lætur dósir og flöskur í gámana og styrkir þar með Tintron, svo ekki sé minnst á heimamenn. Gámarnir eru samstarfsverkefni Tintron og Grænna Skáta.
Jakbob Guðnason er varaformaður Tintrons.
„Það eru óprúttnir aðilar að stela dósunum frá okkur, sem Græni Skátar og Tintron eru að safna hér í Grímsnesi. Þar er farið mjög reglulega, nánast hverja helgi og tæmdir hjá okkur kassarnir,“ segir Jakob.
Jakob segir þetta óþolandi og mikinn tekjumissi því sveitin sé til dæmis í framkvæmdum við húsnæði sitt og að ágóðinn af dósunum hafi verið einu föstu tekjurnar.
„Það hefur verið upp á síðkastið til dæmis núna tvær síðustu helgar hefur verið farið í fimm til sex gáma, bæði hjá okkur og svo á Laugarvatni. Þannig að þetta er gert skipulega, það er ekki bara einhver einn gámur tekinn, heldur er farið á allar stöðvarnar,“ bætir Jakob við.
Jakob segir að dósagámarnir séu brotnir upp með því að klippa á lása oft með tilheyrandi skemmtum, sem sé þá tjón fyrir Græna skáta, sem eiga gámana. Síðan eru notuð tæki og tól til að ná dósunum upp úr gámunum.
„Það er einhver grunur, lögreglan hefur aðeins verið að aðstoða okkur í þessu en við vitum ekki núna hver þetta er. Það er búið að taka nokkra aðila í sumar þar sem þetta er ekki bara bundið við okkar svæði, Grímsnesið eða Árnessýsluna, þetta er Borgarfjörðurinn og höfuðborgarsvæðið líka,“ segir Jakob.
Jakob segir að nú sé unnið að því að setja upp myndavélar og eftirlitskerfi við gáma þar sem það sé hægt en á öðrum stöðum er ekkert rafmagn og því ekki hægt að setja upp kerfi.
En hvað er fjárhagstjónið mikið fyrir Tintron vegna stolinna dósa?
„Miðað við það magn, sem er búið að vera að taka núna þá gætum við örugglega á ári verið að fá milljón meira ef það væri ekki tekið úr kössunum,“ segir varaformaður Tintrons í Grímsnes- og Grafningshreppi.
