Aðfaranótt fimmtudags var fimmtán hælisleitendum vísað úr landi. Fólkið var handtekið í umfangsmikilli lögregluaðgerð og síðan flutt upp á Keflavíkurflugvöll í skjóli nætur. Til stóð að vísa 28 manns úr landi en þrettán aðilar fundust ekki.
Að sögn Ungra vinstri grænna var aðgerð þessi í boði Jóns Gunnarssonar, dómsmálaráðherra, og Sjálfstæðisflokksins.
„Dómsmálaráðherra hafði þó lítinn tíma til þess að ræða málið við fjölmiðla og þingnefnd í dag þar sem hann hafði í nógu að snúar í innanflokksmálum í Kópavogi. Svo mikið smáræði er mannréttindabrotið fyrir honum. Málaflokkurinn er augljóslega í kolröngum höndum en það þarf ekki að koma neinum á óvart,“ segir í yfirlýsingu frá félaginu.
Í yfirlýsingunni eru vinnubrögð lögreglu sérstaklega gagnrýnd. Lögregla hafi framið mannréttindabrot um miðja nótt. Aðgerðirnar eru sagðar vera stjórnvöldum til háborinna skammar.
„Finnst ráðherrum og þingmönnum VG þessi vinnubrögð viðunandi? Er ríkisstjórnarsamstarfið virkilega orðið mikilvægara en mannúð? Svona vinnubrögð eru allavega ekki í okkar nafni!“ segir í lok yfirlýsingarinnar.