Leikur Veszprem og Magdeburg var jafn og spennandi frá upphafi til enda og liðin skiptust á að hafa forystuna. Heimamenn í Veszprem náðu þriggja marka forskoti um miðjan fyrri hálfleikinn, áður en Magdeburg snéri taflinu við og náði þriggja marka forskoti í stöðunni 12-15, en heimamenn jöfnuðu metin fyrir hálfleik og staðan var 16-16 þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Svipaða sögu er að segja af síðari hálfleik þar sem liðin skiptust á að skora, en heimamenn náðu þó aftur upp þriggja marka forskoti í stöðunni 28-25. Gestirnir í Magdeburg voru þó ekki lengi að jafna metin á ný og við tóku æsispennandi lokamínútur.
Það voru að lokum heimamenn í Veszprem sem fengu tækifæri til að stela sigrinum í seinustu sókn leiksins, en inn vildi boltinn ekki og niðurstaðan því jafntefli, 35-35. Bjarki Már Elísson skoraði eitt mark fyrir Veszprem í kvöld, en þeir Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson fóru á kostum í liði Magdeburg og skoruðu samtals 15 mörk. Ómar skoraði átta og Gísli sjö.
Bjarki og félagar hans í Veszprem sitja nú á toppi A-riðils með níu stig eftir fimm leiki, tveimur stigum meira en Magdeburg sem situr í þriðja sæti.
Þá skoraði Haukur Þrastarson tvö mörk fyrir pólska liðið Kielce sem vann góðan þriggja marka útisigur gegn Celje Lasko á sama tíma, 30-33.
Kielce situr nú í öðru sæti B-riðils með átta stig eftir fimm leiki, en lið Celje Lasko situr í sjöunda sæti með tvö stig.