Fyrri samningur Elvars við félagið átti að renna út næsta sumar og því er um tveggja ára framlengingu að ræða. Frá þessu er greint á heimasíðu Melsungen, en þar kemur fram að Elvar sé í burðarhlutverki hjá liðinu og að gríðarleg ánægja sé með fréttirnar.
Þá kemur einnig fram að mikil áhersla hafi verið lögð á að framlengja við Elvar þar sem önnur lið hafi verið með augastað á honum, þar á meðal lið sem leika í Meistaradeild Evrópu.
Elvar gekk í raðir Melsungen sumarið 2021 eftir tveggja ára veru hjá Skjern í Danmörku, en þar áður lék hann með uppeldisfélagi sínu, Selfoss, þar sem hann varð Íslandsmeistari árið 2019 og var valinn besti leikmaður Olís-deildarinnar árin 2018 og 2019.
Elvar fagnar nýja samningnum strax í dag þegar Melsungen tekur á móti Wetzlar í þýsku úrvalsdeildinni klukkan 14:00. Liðið hefur hins vegar ekki farið vel af stað á tímabilinu og hefur aðeins unnið einn leik af fyrstu sjö og situr í 15. sæti deildarinnar með fjögur stig.