Flætt hefur inn á minnst fimm hundruð heimili, einn hefur látist og annars er saknað. Flóð sem þessi, sem orsakast af lægð sem kallast La Nina, hafa leitt meira en tuttugu til dauða í Ástralíu á þessu ári.
Í Viktoríu, sem er næstfjölmennasta fylki landsins, hefur eyðileggingin verið mikil í þessari viku. Íbúum nokkurra bæja hefur verið skipað að yfirgefa heimili sín, þar á meðal íbúum nokkurra hverfa í höfuðborg fylkisins Melbourne.
Vegir eru ófærir vegna flóða, skólum hefur verið lokað og meira en þrjú þúsund heimili og fyrirtæki eru án rafmagns.
Í Strathbogie, norðaustur af Melbourne, félu 220 mm af rigningu síðastliðinn sólarhring, sem er um þriðjungur þess sem rignir hvert ár í Lundúnum.
Þá hafa ár í Tasmaníu flætt yfir bakka sína eftir að 400 mm af regni féllu á sumum svæðum í fylkinu á einum sólarhring. Óljóst er hvort flóðin hafi haft áhrif á heimili og fyrirtæki þar.
Um 600 var gert að yfirgefa heimili sín í bænum Forbes í Nýju Suður Wales en gert er ráð fyrir að það flæði inn á 250 heimili og fyrirtæki í dag.
Karlmaður lést í vesturhluta landsins eftir að bíll hans varð undir í flóði. Þá hafa viðbragðsaðilar leitað manns sem talið er að flóðvatn hafi sópað með sér.