Eyjamenn hafa verið að gera góða hluti á heimavelli í síðustu leikjum. Þeir töpuðu síðast á Hásteinsvelli þann 15.júní í sumar og hafa leikið átta leiki heima í Eyjum án þess að tapa.
„Við erum búnir að vera sterkir hérna frá miðju sumri, alveg gríðarlega sterkir. Við erum búnir að búa til ákveðið vígi hér, við vitum alveg hvað við ætlum að gera hér á Hásteinsvelli.“
„Það er búinn að vera ofboðslegur kraftur í liðinu og sérstaklega í fyrri hálfleik hér í dag, það var frábær hálfleikur sem lagði grunninn að þessu.“
Eyjamenn leiddu 2-0 í hálfleik í dag og voru að leika virkilega vel á köflum fyrir hlé. Eftir hálfleikspásuna voru það hins vegar Keflvíkingar sem tóku yfir og sóttu án afláts í lokin.
„Þetta var karakter í seinni hálfleik, við vorum skrefinu á eftir og það vantaði aðeins upp á sömu læti og í fyrri hálfleik. Að landa þessu er það sem þetta snýst um, annar leikurinn í röð þar sem við löndum sigri og berjumst alveg með kjafti og klóm fram á síðustu mínútu. Karakterinn í klefanum náði í þessi stig og við áttum þetta skilið.“
Eyjamenn þurfti að gera breytingu á sínu liði skömmu fyrir upphafsflaut í dag. Guðjón Orri Sigurjónsson, sem átti að vera í markinu, meiddist og inn í hans stað kom Jón Kristinn Elíasson.
„Jón Kristinn var frábær, gjörsamlega stórkostlegur. Það er erfitt að koma inn í leik einhverjar tuttugu og fimm mínútur fyrir leik, erfitt að gíra sig upp fyrir það. Hann sýndi toppklassa frammistöðu og var geggjaður fyrir okkur.“
Eyjaliðið er sex stigum fyrir ofan fallsæti þegar þrír leikir eru eftir af þessari úrslitakeppni Bestu deildarinnar.
„Seinni hluta mótsins hefur í heildina verið kraftur í okkur, góður taktur, stemmning og sjálfstraust. Við ætlum að keyra á þetta út þessa þrjá leiki. Okkur langar í níu stig í viðbót, það er alveg öruggt.“