Handbolti

Ágúst Elí bjargaði stigi fyrir Íslendingalið Ribe-Esbjerg

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ágúst Elí Björgvinsson sá til þess að Ribe-Esbjerg nældi í eitt stig í dag.
Ágúst Elí Björgvinsson sá til þess að Ribe-Esbjerg nældi í eitt stig í dag. Ribe-Esbjerg

Íslendingalið Ribe-Esbjerg, með þá Elvar Ásgeirsson, Ágúst Elí Björgvinsson og Arnar Birkir Hálfdánarson innanborðs, gerði 31-31 jafntefli er liðið tók á móti Bjerringbro/Silkeborg í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag.

Leikurinn var jafn og spennandi frá upphafi til enda, en þrátt fyrir góða byrjun heimamanna í Ribe-Esbjerg þar sem liðið skoraði fyrstu sex mörk leiksins var munurinn á liðunum aðeins eitt mark þegar flautað var til hálfleiks, staðan 16-15.

Gestirnir í Bjerringro/Silkeborg byrjuðu síðari hálfleikinn betur og náðu mest fjögurra marka forksoti í stöðunni 27-31 þegar tæpar fimm mínútur voru til leiksloka. Heimamenn í Ribe-Esbjerg vöknuðu þó heldur betur til lífsins á ný og skoruðu seinustu fjögur mörk leiksins áður en Ágúst Elí Björgvinsson varði seinasta skot gestanna á lokasekúndum leiksins.

Niðurstaðan því 31-31 jafntefli og liðin skipta stigunum á milli sín. Liðin sitja því enn hlið við hlið í sjötta og sjöunda sæti deildarinnar með átta stig eftir sjö umferðir.

Ágúst Elí Björgvinsson varði níu bolta í marki Ribe-Esbjerg, ásamt því að skora eitt mark fyrir liðið. Elvar Ásgeirsson skoraði tvö, en Arnar Birkir Hálfdánarson komst ekki á blað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×