Frá og með fyrsta janúar 2023 munu börn Jóakims prins ekki bera titlana prins og prinsessur en Alexandra, fyrrverandi eiginkona Jóakims, sagði í síðustu viku fjölskylduna alla hneykslaða vegna þessa.
Ákvörðunin hafi komið eins og þruma úr heiðskýru lofti og börnunum hafi fundist þau útskúfuð. Börn Friðriks krónprins og Mary krónprinsessu, halda sínum titlum sem prinsar og prinsessur en börn Jóakims munu geta notast við titlana greifar og greyfynjur af Monpeza.

Í yfirlýsingu sem birtist á samfélagsmiðlum Margrétar Þórhildar Danadrottningar í dag segir hún ákvörðunina hafa verið lengi á leiðinni. Með fimmtíu ára reynslu sem drottning taldi hún nauðsynlegt að bæði líta til fortíðar og horfa fram á við.
„Það er mín skylda og ósk sem drottning að tryggja að konungsveldið haldi áfram að þróast í takt við tímann. Það kallar stundum á erfiðar ákvarðanir og það verður alltaf erfitt að finna réttu stundina,“ segir drottningin í yfirlýsingu á samfélagsmiðlum.
Að hennar sögn fylgja miklar skuldbindingar og fjöldi verkefna því að bera konungslegan titil en í framtíðinni myndu þær skyldur falla á færri fjölskyldumeðlimi konungsfjölskyldunnar. Um hafi verið að ræða ákvörðun sem hún taldi nauðsynlega til að tryggja framtíð konungsveldisins og ákvörðun sem hún vildi taka á eigin tíma.
„Ég hef tekið mína ákvörðun sem drottning, móðir og amma, en ég hef sem móðir og amma vanmetið hversu mikil áhrif hún hefur haft á yngsta son minn og hans fjölskyldu. Hún hefur mikil áhrif og það hryggir mig,“ segir drottningin.
Hún ítrekar þó að hún sé gríðarlega stolt af fjölskyldu sinni og blæs þar með á orðróma að það andi köldu milli hennar og yngri sonar hennar. Hún kveðst nú vona að fjölskyldan fái frið til að vinna í sínum málum.