Handbolti

Veszprém sneri taflinu við í síðari hálf­leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bjarki Már átti fínan leik í kvöld.
Bjarki Már átti fínan leik í kvöld. Twitter@telekomveszprem

Bjarki Már Elísson og félagar í Veszprém unnu Dinamo Búkarest í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld, lokatölur 33-30.

Gestirnir frá Rúmeníu byrjuðu leikinn betur og var Dinamo Búkarest nokkuð óvænt yfir í hálfleik, staðan þá 15-17. Sem betur fer sneru heimamenn dæminu við en Bjarki Már ræddi í síðasta hlaðvarpsþætti Seinni bylgjunnar kröfurnar sem stuðningsfólk Veszprém setur á liðið.

Tvö mörk eru ekki mikið í handbolta og það sýndu heimamenn í síðari hálfleik. Bjarki Már skoraði fyrstu tvö mörkin eftir að leikurinn hófst á ný og staðan orðin 17-17. Raunar skoruðu heimamenn fyrstu fjögur mörkin og horfðu aldrei um öxl.

Á endanum unnu heimamenn þriggja marka sigur, lokatölur 33-30. Veszprém hefur eftir leik kvöldsins unnið alla þrjá leiki sína í Meistaradeild Evrópu.

Bjarki Már skoraði fjögur mörk í kvöld. Rasmus Lauge Schmidt kom að flestum mörkum í liði Veszprém en hann skoraði fimm og lagði upp sex til viðbótar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×