Sport

Segja ágreining en ekki meintan ölvunarakstur ástæðu afsagnar

Samúel Karl Ólason skrifar
DJI_0898
Vísir/Vilhelm

Stjórn Fimleikasambands Íslands segir ekki rétt að Kristinn Arnarsson, formaður, hafi sagt af sér vegna meints ölvunaraksturs eins af landsliðsþjálfurum sambandsins. Langvarandi ágreiningur um val landsliðsþjálfara hafi þess í stað verið ástæðan og Kristinn hafi sjálfur sagt það.

Kristinn neitaði að tjá sig við fréttastofu í kvöld.

„Stjórn FSÍ harmar afsögnina og þykir um leið miður að hún verði til þess að einkamálefni séu dregin fram í opinbera umfjöllun og grunur falli á nokkra einstaklinga sem starfa við þjálfun á vegum sambandsins,“ segir í yfirlýsingu frá stjórn Fimleikasambandsins.

Fyrr í kvöld var sagt frá því að Kristinn hefði sagt af sér eftir fund stjórnarinnar í dag og að það hefði verið vegna ákvörðunar stjórnar Fimleikasambandsins að gera nýjan samning við landsliðsþjálfara sem var sagður hafa keyrt undir áhrifum áfengis eftir samkvæmi í sumar.

Sjá einnig: Formaður segir af sér eftir meintan ölvunarakstur landsliðsþjálfara

Fimleikasambandið fékk ábendingar um það í sumar, eftir samkvæmi sem haldin voru í kjölfar Norðurlandamóts sem haldið var hér á landi í júlí, að vitni og þar á meðal landsliðsfólk, hefðu séð umræddan þjálfara fara ölvaðan upp í bíl eftir samkvæmin tvö og keyra á brott.

Í yfirlýsingunni segir að erindi hafi borist stjórninni í júlí þar sem fram hafi komið ásakanir um meintan ölvunarakstur eins af landsliðsþjálfurum FSÍ eftir afmælisfögnuð. Fyrr um kvöldið hafi sami þjálfari sótt lokahóf Norðurlandamótsins en seinna samkvæmið hafi ekki tengst störfum hans á nokkurn hátt.

Það erindi var sent til aga- og siðanefndar Fimleikasambandsins en í yfirlýsingunni segir að þjálfarinn hafi neitað því að hafa ekið undir áhrifum og að framburði annarra úr seinna samkvæminu hafi ekki borið saman. Ekkert liggi fyrir um refsivert athæfi og því hafi málið verið látið niður falla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×