„Ég tel einfaldlega að stjórn Sýnar í núverandi mynd endurspegli ekki hluthafahóp félagsins. Miklar breytingar hafa orðið í hluthafahópnum upp á síðkastið, bæði í aðdraganda síðasta hluthafafundar og í kjölfarið. Einkafjárfestar eru orðnir fyrirferðamiklir á hluthafalistanum og bæði eðlilegt og sjálfsagt að þeir komi að stjórn félagsins með virkari hætti en nú er,“ segir í skriflegu svari Hilmars Þórs við fyrirspurn Vísis.
Óhætt er að segja að miklar breytingar hafi orðið á eigendahópi Sýnar síðustu vikur og mánuði eftir að Gavia Invest keypti allan hlut Heiðars Guðjónssonar, fráfarandi forstjóra félagsins. Eftir kaupin fór Gavia fram á hluthafafund og stjórnarkjör.
Á fundinum fengu fjórir af fimm stjórnarmönnum endurnýjað umboð og Jón Skaftason, sem fer fyrir Gavia, komst einn nýr inn í stjórnina. Þeir Reynir Grétarsson, langstærsti hluthafi Gavia og því stærsti einstaki eigandi Sýnar, og Hilmar Þór hlutu ekki brautargengi í stjórnarkjörinu.
Lífeyrissjóðir, sem fara með stóran hlut í Sýn, beittu nánast öllum atkvæðum sínum á hluthafafundinum til að koma þeim Jóhanni Hjartarsyni og Páli Gíslasyni inn í stjórnina á ný. Þær Petrea Ingileif Guðmundsdóttir og Sesselía Birgisdóttir voru sjálfkjörnar í stjórn vegna kynjakvóta. Í hlutafélögum þar sem starfa fimmtíu starfsmenn eða fleiri má hlutfall hvors kyns í fimm manna stjórn ekki vera minna en fjörutíu prósent.
Vísir er í eigu Sýnar.