Almenningi hefur gefist kostur á að votta drottningunni virðingu sína í dag eftir að líkkista hennar var færð frá Holyrood-höll í Edinborg í dómkirkju heilags Giles.
Karl III, ásamt Kamillu Parker-Bowles, eiginkonu hans, fór fyrir líkfylgd þar frá höllinni að dómkirkjunni. Farið var um hina sögufrægu Konunglegu mílu, The Royal Mile, í Edinborg þar sem fjöldi var samankominn til að votta drottningu virðingu sína.
Hefð sem nær tæpa öld aftur í tímann
Eftir að líkkistunni var komið fyrir í dómkirkjunni stóðu Karl þriðji og systkini hans, Anna prinsessa, Andrés prins og Játvarður prins vörð um kistuna í um tíu mínútur.
Um er að ræða hefð sem nefnist Vaka eða Vakt prinsanna (e. Vigil of the princes) sem varð til þegar Georg fimmti, langafi Karls þriðja, lést árið 1936. Þá stóðu Játvarður áttundi, Albert prins (sem síðar varð Georg sjötti, afi Karls þriðja), Hinrik prins og Georg prins, vörð um líkkistu föður síns í Westminster Hall í London.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Karl stendur hina svokölluðu Prinsavakt. Hann gerði það einnig árið 2002 þegar amma hans, Elísabet drottningarmóðir, lést. Með honum í það skipti voru einnig Andrés og Játvarður prins og að auki David Armstrong-Jones, sonur Margrétar prinsessu, systur Elísabetar annarrar.
Anna prinsessa fylgir móður sinni til Lundúna
Líkkistan verður staðsett í kirkjunni þangað til síðdegis á morgun er för hennar til Lundúna hefst. Verður henni flogið til höfuðborgarinnar frá Edinborg. Anna prinsessa mun verða með í för. Þegar komið verður til Lundúna verður líkkistan flutt til Buckingham-hallar þar sem Karl og Kamilla munu taka á móti henni.
Mikill fjöldi hefur lagt leið sína að kirkju heilags Giles seinnipartinn í dag til að votta Elísabetu annarri virðingu sína. Kirkjan er dómkirkja skosku þjóðkirkjunnar og þykir hin glæsilegasta.
Dómkirkjan með ríka tengingu við Ísland
Kirkjan ríka tengingu við Ísland eins og fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 árið 2019 þegar Þórir Guðmundsson heimsóttir kirkjuna. Í kirkjunni má finna mikilfenglegan steindan glugga til minningar um þjóðskáldið Robert Burns. Íslendingurinn Leifur Breiðfjörð var fenginn til að hanna gluggann.
Glugginn þykir eitt helsta aðdráttarafl kirkjunnar, eins og fjallað var um í fréttinni, sem sjá má í heild sinni hér að neðan.