Konungurinn mun að öllum líkindum samþykkja áætlanir fyrir útför Elísabetar í dag en dagsetning hefur ekki verið ákveðin. Útfarardagur drottningarinnar verður opinber frídagur.
Allir opinberir fánar hafa nú verið dregnir í hálfa stöng og leiðbeiningar hafa verið sendar út um að hringja kirkjuklukkum á hádegi. Þá verður hleypt af 96 skotum í Hyde Park og víðar, einu sinni fyrir hvert ár sem drottningin lifði.
Karl mun halda til Lundúna frá Balmoral í dag þar sem hann mun meðal annars funda með Liz Truss forsætisráðherra Bretlands. Hann mun að öllum líkindum einnig samþykkja áætlanir fyrir útför Elísabetar.
Síðdegis eða undir kvöld mun Karl ávarpa þjóðina en ávarpið verður tekið upp fyrirfram. Þá munu ráðherrar sækja minningarathöfn í dómkirkju Sankti Páls í Lundúnum.
Hvað gerist næstu daga?
Karl varð konungur um leið og Elísabet lést en gera má ráð fyrir að formleg yfirlýsing þess efnis verði gefin út á morgun. Eiginleg krýningarhátíð mun hins vegar ekki eiga sér stað fyrir en eftir einhverja mánuði eða jafnvel ár.
Karl mun koma fyrir embættistökunefnd Bretlands í höll Sankti James í Lundúnum á morgun, sem mun lýsa hann konung. Í nefndinni eru háttsettir þingmenn, bæði núverandi og fyrrverandi, háttsettir embættismenn, landstjórar ríkja Breska sambandsveldisins og borgarstjóri Lundúna.
Meira en sjö hundruð eiga rétt á að mæta í athöfnina en vegna lítils fyrirvara er líklegt að þeir verði mun færri. Þegar Elísabet mætti fyrir nefndina árið 1952 mættu um tvö hundruð.
Jarðneskum leifum drottningarinnar verður komið fyrir í kistu og flutt í Holyrood-höll skammt frá Edinborg á morgun. Þá er gert ráð fyrir líkfylgd um Konunglegu míluna í Edinborg, sem endar í St. Giles dómkirkjunni. Þar mun fara fram einhvers konar kistulagning eða minningarathöfn fyrir konungsfjölskylduna áður en fólki gefst kostur á að koma þar inn og votta drottningunni virðingu sína. Sólarhring síðar er ráðgert að flogið verði með hana til Lundúna.
Fyrsti viðkomustaður verður Buckingham höll en þaðan verður líkfylgd að Westminster, þar sem fram fer minningarathöfn. Ráðgert er að hún verði þar í nokkra daga svo fólk geti vottað henni virðingu sína. Útförin fer fram í Westminster Abbey dómkirkjunni í Lundúnum.