Tanja Ýr er annar eiganda Glamista Hair sem selur hárlengingar og tengdar vörur. Hún heldur auk þess námskeið í markaðssetningu og öðru tengdu sjálfstæðum rekstri.
Í færslu sem birt var á samfélagsmiðlum í dag segist Tanja Ýr ætla að aðstoða aðra við markaðssetningu og að búa til eigið vörumerki. Einnig ætlar hún að fara af stað með nýtt hlaðvarp. Augnháramerkið var byrjunin á viðskiptaferli Tönju en hún hefur einnig á síðustu árum selt skartgripi og fleira.
„Ég verð alltaf ævinlega þakklát fyrir hvað þetta vörumerki kenndi mér þvílíkt margt,“ skrifar Tanja Ýr meðal annars í færsluna.
„Það hefur alltaf verið markmiðið mitt að gefa út vörur sem eru betri, öðruvísi eða skemmtilegri en þær sem eru á markaði og mér tókst það í ansi mörg ár. Hinsvegar er ég komin á allt annan stað í dag.“
Tanja Ýr segist ætla að setja áherslu á að vera að vinna í aðeins færri hlutum og gera þá enn betur.