Ekkert var þó skráð í kerfi lögreglunnar og segir lögreglustjórinn að ekki hafi verið tilefni til.
Karlmaður um þrítugt skaut hjón á Blönduósi á heimili þeirra í gærmorgun. Konan er látin og eiginmaður hennar alvarlega særður á sjúkrahúsi. Árásarmanninum var ráðinn bani á sama vettvangi.
Sjá einnig: Líðan mannsins eftir atvikum
Árásarmaðurinn var skotáhugamaður en samkvæmt heimildum fréttastofu átti hann við geðrænan vanda að stríða. Hann hafði nýlega verið vistaður á geðdeild og var handtekinn fyrr í sumar en síðan sleppt.
Í morgun birtu forsvarsmenn skotfélagsins Markviss á Blönduósi yfirlýsingu um að meðlimir þess hefðu í nóvember sagt lögreglu frá því að þeir hefðu áhyggjur af andlegri heilsu hans.
Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra, segir þetta ekki hafa verið neina formlega tilkynningu.
Hann segir að lögreglumaður á Blönduósi hafi rætt við gjaldkera skotveiðifélagsins og sá hafi lýst yfir áhyggjum af skotmanninum. Birgir segir viðkomandi lögreglumann hafa rætt við skotmanninn, því þeir hafi þekkst í mörg ár. Ekki hafi verið talin ástæða til að aðhafast og var málið ekki skráð í kerfi lögreglu. Það hafi ekki verið þess eðlis að ástæða hafi þurft til.
Birgir segir að ekki hafi verið um lögreglumál að hans viti og telur hann umræddan lögreglumann hafa brugðist rétt við. Þetta hafi verið óformleg samskipti og vegna þeirra hafi ekki verið tilefni til aðgerða.
Fyrst var sagt frá viðbrögðum Birgis á vef Morgunblaðsins í dag.
Birgir segist fyrst hafa vitað af skotmanninum eftir að afskipti hafi verið höfð af honum fyrir um fjórum vikum síðan. Þá hafi vopn hans verið tekin af honum en Birgir segir að það hafi ekki verið vegna hótana, eins og fram hafi verið haldið.
Hann hafi í kjölfarið ákveðið að afturkalla skotvopnaleyfi mannsins. Það hafi verið í vinnslu og hafi á þeim grundvelli staðið til að kalla eftir læknisvottorði til að meta hvort hann væri fær til að vera með skotvopnaleyfi.
„Þetta ferli er auðvitað hið lögbundna ferli og getur í sjálfu sér ekki farið í neina aðra meðferð, lögum samkvæmt,“ segir Birgir.
Ekki hefur náðst í Páleyju Borgþórsdóttur, lögreglustjóra á Norðurlandi eystra þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í dag. Lögreglan á Norðurlandi eystra fer með rannsókn málsins.