Elsheikh var í apríl sakfelldur fyrir gíslatöku, samsæri um að myrða bandaríska ríkisborgara og stuðning við hryðjuverkasamtök, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins um málið.
Við ákvörðun refsingar í dag hlaut hann átta lífstíðarfangelsisdóma sem hann mun afplána samtímis án möguleika á reynslulausn.
Bítlar Íslamska ríkisins, fjórir vígamenn ISIS frá Bretlandi sem hlutu viðurnefnið vegna bresks hreims þeirra, hrepptu blaðamennina James Foley og Steven Sotloff og mannúðarstarfsmennina Kayla Mueller og Peter Kassig í gíslingu og myrtu fyrir átta árum.
Þeir stóðu jafnframt að pyndingum og morðum fjölda vestrænna gísla samtakanna og notuðu upptökur af ódæðunum í alræmd áróðursmyndbönd Íslamska ríkisins.
Elsheik er þekktasti vígamaður Íslamska ríkisins sem hlotið hefur dóm í Bandaríkjunum ásamt sambítli sínum Alexanda Kotey, sem hlaut lífstíðardóm í apríl síðastliðnum. Dómarinn sem dæmdi hann sagði brot hans hræðileg, villimannsleg, grimmileg og glæpsamleg þegar hann kvað upp dóminn.

Elsheikh sjálfur tjáði sig ekki neitt við réttarhöldin. Hann hefur í raun ekkert tjáð sig síðan hann var handsamaður fyrir utan að biðja um að verða ekki sendur í hámarksöryggisfangelsið ADX í Colorado. Þar eru fangar almennt látnir dúsa í einangrun.