Íslenski boltinn

„Svolítið leiðinlegt lífið þessa dagana þegar þú ert ekki í Evrópukeppninni“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísak Snær Þorvaldsson reynir að komast framhjá Víkingnum Oliver Ekroth í leik liðanna í sumar.
Ísak Snær Þorvaldsson reynir að komast framhjá Víkingnum Oliver Ekroth í leik liðanna í sumar. Vísir/Hulda Margrét

Gunnlaugur Jónsson hitti þjálfara liða Breiðabliks og Víkings í Bestu deild karla fyrir innbyrðis leik liðanna í vikunni og ræddi meðal annars við þá um árangur liðanna í Evrópukeppninni í ár.

Breiðablik og Víkingur komust lengst íslensku liðanna í Evrópukeppninni en bæði náðu þau að spila sex Evrópuleiki í sumar. Víkingar byrjuðu í undankeppni fyrir forkeppnina og spiluðu því alls átta Evrópuleiki í ár.

Víkingsliðið tapaði ekki Evrópuleik í Víkinni í ár en liðið vann fjóra leiki þar og gerði eitt jafntefli.

Blikar unnu þrjá fyrstu Evrópuleiki sína en þeir þrír síðustu töpuðu þar af báðir á móti mjög sterku tyrknesku liði Istanbul Basaksehir.

En voru þjálfararnir tveir ánægðir með Evrópukeppnina hjá sínum liðum í sumar?

Ber vott um ákveðinn stöðugleika

„Þegar maður horfir á þetta heildstætt þá er ég ánægður með að við förum annað árið í röð í þriðju umferð forkeppnina og spilum þrjár umferðir og sex leiki. Mér finnst það bera vott um ákveðinn stöðugleika,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks.

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, eftir sigurleik hjá sínu liði.Vísir/Hulda Margrét

„Ég hefði viljað sjá aðeins betri leiki á köflum en ég held að það sé alveg ljóst að langbesti leikurinn okkar var hérna heima á móti Istanbul Basaksehir. Mér fannst við mæta þeim jafnfætis á milli teiganna en þeir refsuðu okkur fyrir einbeitingaleysi og lélega einn á móti einum vörn þegar við gleymdum okkur í að elta menn. Þeir refsa okkur þar og á sama hátt þá náum við ekki að refsa þeim,“ sagði Óskar Hrafn.

„Þetta voru erfiðir leikir og erfiðir andstæðingar og þá sérstaklega Buducnost og Istanbul. Ég er sáttur með þetta og nú þurfum við bara að halda áfram og gera enn harðari atlögu að komast lengra á næsta ári,“ sagði Óskar.

Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunni í leik með Víkingum.Vísir/Hulda Margrét

Neyddur til að kafa djúft

„Ég er gríðarlega sáttur. Ég held að liðið hafi tekið mikið þroskaskref og ég líka persónulega sem þjálfari. Þessir leikir í Evrópukeppninni, með fullri virðingu fyrir leikjum í Bestu deildinni, eru bara allt annars eðlis. Þú ert neyddur til að kafa mjög djúpt í öll smáatriði hjá þínu liði og að sama skapi líka hjá þeim andstæðingum sem þú ert að fara að spila á móti,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga.

„Á þessu stigi, eins og við fengum að kynnast, þá eru bara ein mistök og þú ert bara úr leik. Þú ert kannski með stjórn á öllu 89 mínútur en svo koma þessu mistök og þú ert úr leik,“ sagði Arnar.

„Ég held að allir í klúbbnum, líka utan frá, langi í þetta aftur. Það er svolítið leiðinlegt lífið þessa dagana þegar þú ert ekki í Evrópukeppninni. Mönnum langar í þetta aftur en þá þurfa menn að vera heiðarlegir með hvað við gerðum rangt og leita inn á við hvað við getum gert til að laga þessi smáatriði svo að við eigum möguleika á því að komast í riðlakeppnina einhvern tímann,“ sagði Arnar.

Það má sjá þetta brot úr viðtölunum við þá hér fyrir neðan.

Klippa: Viðtal við Óskar Hrafn og Arnar: Evrópukeppnin í sumar

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×