Björn Zoëga, formaður nýrrar stjórnar Landspítala, sagði í gær að til greina kæmi að fækka starfsmönnum spítalans í hagræðingarskyni. Stöðum á svokölluðum stuðningssviðum yrði þá fækkað, sem vinna ekki beint með sjúklingum.
Þessar hugmyndir falla illa í kramið hjá Samfylkingunni.

„Ég held að væntingar um það að það sé hægt að halda kostnaði niðri við rekstur Landspítala með því að segja upp starfsfólki og halda uppi sömu þjónustu séu fullkomlega óraunhæfar,“ segir Oddný G. Harðardóttir, nefndarmaður Samfylkingarinnar í velferðarnefnd.
Formaður Félags lífeindafræðinga sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að spítalinn mætti alls ekki við því að starfsfólki fækki.
Vinna þeirra sem ynnu ekki með sjúklingum væri gríðarlega mikilvæg fyrir endaniðurstöðu á meðferð þeirra.
„Við þurfum að sjá til þess að heilbrigðisstarfsfólkið okkar haldist í vinnu og það yfirgefi ekki vettvang vegna álags eins og það hefur verið að gera núna síðustu ár, sérstaklega eftir Covid-faraldurinn. Þannig að það að fara að segja upp stuðningsfólki sem er ráðið til að létta undir með hjúkrunarfólkinu. Það væri óraunhæft,“ segir Oddný.
Hún er sammála Birni Zoëga í því að mannekla sé helsta vandamál spítalans. Álagið hafi því verið gríðarlegt á starfsfólkinu.
„Þess vegna hefur stuðningsfólkið verið ráðið inn og það getur varla verið fyrsta verk að segja upp því fólki. Fyrsta verk hlýtur að vera að reyna að bregðast við vandanum með því að fjölga hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum með öllum ráðum,“ segir Oddný.
Stjórnvöld verði að sætta sig við að það muni kosta talsvert fjármagn að halda í heilbrigðisstarfsfólk; bæta þurfi launakjör þess og tryggja þeim viðunandi starfsaðstæður svo fátt eitt sé nefnt.