Gendron var færður fyrir alríkisdómstól í dag en þar stendur hann frammi fyrir 27 ákærðum sem varða meðal annars hatursglæpi og hryðjuverk. Saksóknarar halda því fram að hann hafi skipulagt ódæðið vel og hafi markvisst myrt eldra og berskjaldað fólk.
Hann hafði áður lýst yfir sakleysi sínu fyrir dómi í New York-ríki.
Sjá einnig: Hryðjuverkamaðurinn í Buffalo lýsir yfir sakleysi
Hann streymdi frá árásinni á netinu en áður en starfsmenn streymisveitunnar Twitch slitu á útsendinguna mátti sjá hann stöðva bíl sinn fyrir utan matvöruverslun í Buffalo og hefja skothríðina. Því næst fór hann þar inn og elti uppi fólk og skaut það til bana.
Áður en útsendingin var stöðvuð mátti sjá hvítan mann verða á vegi Gendrons, en þegar maðurinn kallaði á hjálp baðst árásarmaðurinn afsökunar og hlífði honum. Auk þeirra tíu sem dóu, særðust þrír í árásinni en Gendron gafst upp þegar lögregluþjóna bar að garði.
AP fréttaveitan segir að enn sé verið að skoða hvort krefjast eigi dauðadóms í málinu.
Auk þess að vera með hálfsjálfvirkan Bushmaster XM-15 riffil, var Gendron einnig með hlaðna haglabyssu, hefðbundin riffil og skotfæri í bílnum.
Saksóknarar segja Gendron vera rasískan öfgamann og hann hafi ítrekað lýst skoðunum í takt við það á netinu.