„Ég er búinn að biðja um stöðuna á innrituninni og á að fá uppfærða stöðu fljótlega upp úr verslunarmannahelgi,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, í samtali við fréttastofu þegar hann var inntur eftir viðbrögðum við óánægju foreldra með seinagang í inntrituninni.
„Skóla- og frístundasvið hefur gefið það út að margt bendi til þess að við náum ekki eins hratt niður í aldri eins og við vorum að vonast eftir á þessu hausti. En við erum auðvitað að halda áfram á fullu að fjölga leikskólum og ráða leikskólakennara til að taka á móti börnum.“
Óásættanleg staða
Kristín Tómasdóttir var hvöss í máli sínu þegar hún sakaði borgarfulltrúa um lygar í málefnum yngstu leikskólabarna í viðtali á Vísi fyrr í mánuðinum. Taldi hún óásættanlegt að grunnþjónusta líkt og skólamál væru í ólestri á meðan verið sé að opna sundlaugar og strætó á nóttunni.
„Ég get alveg sett mig í hennar spor,“ segir Dagur. „Ég á fjögur börn sjálfur og gengið í gegnum þetta allt, dagforeldra, ungbarnaleikskóla og lengra fæðingarorlof. Þetta er bara veruleiki sem við viljum leggja að baki með því að vera að byggja upp í leikskólamálum og það erum við sannarlega að gera.“
Þessi uppbygging taki hins vegar tíma og taki á, á meðan.
„Við erum á góðri leið með að brúa bilið en við skulum sjá hvað við náum langt á þessu hausti. Svo höldum við áfram að fjölga plássum í vetur. Við viljum gera vel í þessum málaflokki, það er alveg klárt.“
En var ekki hægt að búa betur í haginn og sjá þessa þróun fyrir, þegar vitað var hve mörg börn þyrftu pláss í haust?
„Jú, fyrir tveimur árum ákváðum við að stórauka í átakið og stórfjölga þeim plássum sem við vorum að bæta við vegna þess að okkur sýndist Reykvíkingum vera að fjölga hraðar og fæðingum einnig í Covid. Það sem er að gerast akkúrat núna er að einstaka verkefni og innritanir á einstökum verkefnum eru að færast til í tíma. En eins og ég segi fáum við skarpari mynd af því eftir verslunarmannahelgi,“ segir Dagur að lokum.