Stjarnan verður þriðja íslenska liðið sem Darboe leikur með en hann spilaði með Grindavík árið 2008 áður en hann kom aftur til Íslands til að leika með KR á síðasta tímabili.
Á síðustu leiktíð var Darboe bæði stiga- og stoðsendingahæstur hjá KR með 16,9 stig og 6,7 stoðsendingar að meðaltali á leik. Daninn var jafnframt með flest framlagsstig KR-inga eða 18,9 framlagstig á hvern leik. Er brottför Darboe því mikil blóðtaka fyrir Vesturbæinga en á sama tíma happafengur fyrir Garðbæinga.
„Það er tilhlökkunarefni að sjá Adama í Stjörnubúningnum og eflaust eiga hann og Rob Turner hinn þriðji eftir að valda vörnum andstæðinganna miklum höfuðverk í vetur,“ segir enn fremur í tilkynningu Stjörnunnar í gær.