Íslenski boltinn

Stutt gaman hjá Hans og Hosine

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hans í leik með ÍBV.
Hans í leik með ÍBV. Vísir/Hulda Margrét

Þeir Hans Kamta Mpongo og Hosine Bility hafa yfirgefið lið ÍBV og Fram í Bestu deild karla í fótbolta. Munu þeir ekki leika meira með liðunum á leiktíðinni.

Hans Mpongo er sóknarmaður fæddur árið 2003. Hann samdi við ÍBV fyrir leiktíðina eftir að hafa leikið með varaliði Brentford á Englandi. Hans er nú samningslaus.

Alls kom Hans við sögu í fimm leikjum þar sem fjórir töpuðust en einn endaði með markalausu jafntefli. Tókst honum ekki að þenja netmöskva Bestu deildarinnar.

Hann komst næst því er hann ætlaði að taka vítaspyrnu gegn ÍA en Andri Rúnar Bjarnason, vítaskytta liðsins, tók spyrnuna eftir mikið rifrildi og lét Árna Snæ Ólafsson, markvörð Skagamanna, verja frá sér.

ÍBV situr á botni Bestu deildarinnar með aðeins fjögur stig eftir 10 umferðir. Liðið hefur ekki enn unnið leik.

Hosine Bility kom til Fram á láni frá danska úrvalsdeildarfélaginu Midtjylland. Miklar vonir voru bundnir við þennan 21 árs gamla miðvörð en hann fór enga frægðarför um Ísland. Hans síðasti leikur var í 4-1 tapi gegn KA í Mjólkurbikarnum þar sem hann nældi sér í rautt spjald á 39. mínútu leiksins.

Þrátt fyrir mikil vandræði í öftustu línu fékk Bility aldrei tækifæri í byrjunarliði liðsins og er nú haldinn aftur til Danmerkur.

Fram er í 8. sæti Bestu deildarinnar með 10 stig.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×